Proton rafbíll með GM-lausnina

Bílar frá Proton bílaverksmiðjunni í Malasíu eru lítt þekktir í Evrópu. Það er helst að fólk kannist við Proton sem núverandi eiganda og framleiðanda Lotus sportbílanna.  En nú virðast þeir Malasíumenn hafa hug á að sækja inn í Evrópu því þeir ætla að sýna í Genf nýjan rafknúinn bíl með samskonar búnaði og hinn margumtalaði Chevrolet Volt, þ.e. rafknúinn bíl með bensínrafstöð.

http://www.fib.is/myndir/Proton-undirv.jpg
Rafmótor knýr afturhjól, geymar í milligólfi og rafstöð framí.

Bíllinn sem er útlitshannaður í bílahönnuarmiðstöð Giorgetto Giugiaro, hins heimsþekkta ítalska bílahönnuðar. Undirvagn, vél- og drifbúnaður er hannaður hjá Lotus. Bíllinn mun vera tilbúinn til fjöldaframleiðslu og verður hann framleiddur hjá Proton í Malasíu.

 Vinnuheiti bílsins er Proton Concept. Rafstöðin er fram í bílnum og er rafallinn knúinn 1,2 l þriggja strokka, 47 ha. bensínmótor sem allt eins getur gengið á etanóli eins og bensíni. Rafhlöðurnar eru í tvöföldum botni bílsins en rafmótor knýr afturhjólin, eins og ráða má af meðfylgjandi mynd. Ekkert er gefið upp um hversu langt bíllinn kemst á rafhleðslunni einni saman eða samtals á fullhlöðnum geymum og síðan á rafstöðinni þegar geymarnir tæmast.

Bensínrafstöðin fer sjálfvirkt í gang þegar geymarnir eru að tæmast. Ljósavélin sjálf gengur stöðugt á einungis 2500 snúningum á mín. Hún er mjög létt og samanlagt er rafstöðin (bensínvél og rafall) einungis 56 kíló að þyngd

 Þessi Proton Concept bíll er hugsaður sem borgarbíll en hönnuðurinn Giugiaro leitaðist við að fá fram gott innanrými í þessum 3,5 m langa bíl. Hann er fimm dyra og fjögurra sæta og allir fjórir stólarnir eru á sleðum og má renna þeim fram og aftur eftir stærð þeirra sem í þeim sitja. Aðrar upplýsingar um þennan áhugaverða bíl verða væntanlega gefnar upp á blaðamannadögum Genfarsýningarinnar sem eru 3. og 4. mars nk.