PSA viðurkennir HVO dísilolíu sem fullgilt eldsneyti

PSA – framleiðandi Peugeot, Citroen og DS bíla viðurkenndi á miðvikudaginn svokallaða HVO dísilolíu sem fullgilt eldsneyti á alla þá dísilbíla sem PSA framleiðir, svo fremi sem hún stenst samanburð við hefðbundna dísilolíu úr jarðolíu. Viðurkenningin heimilar að nota má jafnvel óblandaða HVO olíu á allar dísilvélar PSA sem uppfylla Euro5 og Euro6 mengunarstaðlana.

Mörgum umhverfisverndarsinnuðum bílamanninum finnst þetta vera talsvert mikilvægt skref í rétta átt. En hvað er eiginlega þessi HVO olía (Hydro Vegetable Oil) sem PSA hefur nú viðurkennt sem góða og gilda?

Hér er átt við svokallaða annarrar kynslóðar olíu sem unnin er úr plöntuúrgangi eða dýrafitu sem ella er urðaður eða brenndur. Fyrstu kynslóðar lífræn olía er hins vegar unnin beint úr plöntum eins og t.d. maís eða pálmum sem ræktaðar eru beinlínis í þeim tilgangi að framleiða eldsneyti á ræktarlandi sem ella væri notað til matvælaræktunar. Þesskonar olía er reyndar á markaði hér sem íblöndunarefni saman við hefðbundna jarð-dísilolíu.