PT Cruiser úr framleiðslu?

http://www.fib.is/myndir/PTCruiser.jpg
PT Cruiser.

Bílablaðið Detroit News telur sig hafa veður af því að á næsta stjórnarfundi Chrysler LCC verði tekin ákvörðun um að hætta framleiðslu á minnst þremur gerðum bíla; Chrysler PT Cruiser, Chrysler Pacifica og Dodge Magnum skutbílnum. Ástæða þessa er sú að allmargar gerðir Chrysler bíla eru það líkar að þær keppa innbyrðis um hylli kaupenda.

Stjórn Chryslers réði nýlega nýjan sölustjóra. Sá heitir Jim Press og var til skamms tíma einn æðstu stjórnenda Toyota – eini Vesturlandabúinn þar. Jim Press hefur lýst því yfir að nauðsynlegt sé að taka til í bílaframleiðslunni hjá Chrysler því að margar gerðir Chrysler bíla séu í blóðugri innbyrðis samkeppni og skilin milli bílanna, eiginleika þeirra, hönnunar  og notagildis séu of óskýr.

PT Cruiser sem hannaður var í gömlum útlitsstíl náði mjög skjótum vinsældum þegar hann kom fyrst fram en vinsældirnar döluðu fljótt. Á þessu ári hefur salan dregist mjög saman eða um 30% og er svipaða sögu er að segja af hinum tveimur gerðunum sem einnig eru á höggstokknum.