Pústsvindlsvandi VW vex og vex

Nýjustu fregnir af útblásturssvindli Volkswagen í Bandaríkjunum gerast sífellt stórbrotnari og virðist VW nú vera komið í verri vandræði en nokkru sinni áður í sögu sinni. Afleiðingarnar eru þegar orðnar verri en nokkurn gat órað fyrir og greinilega síst þeir sem stóðu fyrir því að setja hugbúnað í dísilbíla sem hreinlega slökkti á mengunarvarna- og hreinsibúnaði bílanna - en kveikti aðeins á honum þegar mengunarmæling hófst. Verð hlutabræefa í VW AG hefur fallið gríðarlega og orðsporið er stórlega laskað.

En lengi getur vont versnað: Þegar málið kom upp í Bandaríkjunum rétt fyrir sl. helgi var látið í veðri vaka að það einskorðaðist við dísilbíla Volkswagen og Audi í Bandaríkjunum. Nú er komið í ljós að svo er alls ekki. Glænýjar fréttir frá Volkswagen AG herma að svindlhugbúnaðurinn umræddi fyrirfinnist í 11 milljón VW bílum um allan heiminn. Þýskir fjölmiðlar greina jafnframt frá því að forstjórinn, Martin Winterkorn (sjá mynd) hafi verið gert að taka pokann sinn og yfirgefa forstjórastólinn. við taki af honum Matthias Müller forstjóri Porsche. Þessar fregnir eru óstaðfestar, en búist er við tíðindum á föstudag nk.

En um leið og þetta mál hefur komið upp hjá Volkswagen gerast þær raddir stöðugt sterkari að Volkswagen sé alls ekki eini dísilbílaframleiðandinn sem hefur sett svona hugbúnað í bíla - hugbúnað sem skynjar þegar mengunarmæling bíls hefst. Þá kveikir hugbúnaðurinn hreinlega á mengunarvarnabúnaðinum og falsar þannig hina raunverulegu útblástursmengun í almennri notkun. Dísilbílum hefur síðustu ár fjölgað verulega í umferðinni, ekki síst vegna þess hversu litlu magni eldsneytis þeir brenna og menga þarmeð minna að sama skapi - skyldi maður ætla.

Það hefur lengi verið vitað að dísilreykur er mjög óhollur. Í honum eru heilsuspillandi níturoxíðsambönd og öragnir sem eru það smáar að þeir fara auðveldlega út í blóð manna og annarra spendýra og eru öll þessi efni krabbameinsvaldar. Þessvegna hafa verið hannaðar og famleiddar öragnasíur og annar mengunarvarnabúnaður í dísilbíla og fullyrt að gæti hreinsað fyrrnefnd efni úr útblæstrinum. En um leið virðast VW og trúlega fleiri framleiðendur dísilbíla hafa um leið hannað hugbúnað sem hreinlega slökkti á þessum mengunarvarnabúnaði. Allavega berast fregnir af stóraukinni níturoxíða, sót- og öragnamengun víða um lönd, ekki síst í stórborgum. Svo mikið hefur m.a. kveðið að því í Frakklandi að frönsk yfirvöld hafa lýst þeirri stefnu sinni að útrýma hreinlega dísilbílum úr umferðinni, m.a. með skattlagningu.