Pútín bannar transfólki að keyra bíl

Pútín Rússlandsforseti hefur viðurkennt hinn gríðarlega umferðarslysafaraldur í ríkinu og freistar þess nú að draga úr honum með þeim sérkennilega hætti að banna transfólki að aka bíl. Stjórnarfrumvarp um að fólk með geðtruflanir megi ekki framvegis fá ökuréttindi er orðið að lögum og í Rússlandi telst nefnilega transfólk (transsexual og transgender-) vera geðveikt. BBC sagði frá þessari einstæðu löggjöf sem rússnesk yfirvöld segja byggða á skilgreiningum Alþjóða heilbrigðisstofnunarinnar WHO um varasamar geðtruflanir.

Auk þess að útiloka transfólk frá ökuréttindum ætla rússnesk stjórnvöld líka að útiloka þá sem hallast að kynhegðun sem kalla má áhaldadýrkun og sýniþörf, frá því að öðlast ökuréttindi. Á þessu vafstri öllu er sú undarlega skýring gefin að um sé að ræða hert eftirlit með heilbrigði ökumanna í því skyni að draga úr umferðarslysum.

Og þótt samtök og talsmenn mannréttinda bæði í Rússlandi sjálfu og öðrum löndum blöskri þessi lög og vari við þeim, þá finnast þeir vissulega sem mæla þeim bót. Þannig hafa samtök atvinnubílstjóra í Rússlandi lýst yfir velþóknun sinni. Formaður þeirra segir við BBC að dauðaslys í umferðinni séu altof mörg og einskis megi láta ófreistað að stemma stigu við þeim, m.a. með því að efla eftirlit með (geð)heilsu ökumanna.