Qoros frá Kína

Ný kínversk bíltegund, Qoros, er nú í lokaundirbúningi fyrir fjöldaframleiðslu. Qoros verður fyrst og fremst hugsaður út frá kröfum og þörfum vestræns bílamarkaðar. Þótt þessi nýi bíll sé hannaður í Kína og  verði framleiddur í Kína þá er mikið af hugviti og kunnáttu að baki hans frá Evrópu komið. Hönnuðurinn er  Gert Hildebrand sem hannaði nýja Mini bílinn og allstór hópur vestrænna verk- og tæknifræðinga kemur að sköpun bílsins. Þeirra á meðal eru margir fyrrverandi starfsmenn Saab, Volvo o.fl.

Nú hafa verið birtar teikningar og uppdrættir að þessum nýja bíl sem ætlunin er að frumsýna í framleiðsluútgáfu á bílasýningunni í Genf síðar í vetur. Qoros verður framleiddur af fyrirtæki sem stofnað var árið 2007 af kínverska bílafyrirtækinu Geely og ísraelsku fjárfestingafélagi. Framleiðslan hefst upp úr áramótum en verið er að leggja lokahönd á nýja verksmiðju þar sem bíllinn verður byggður. Lögð hefur verið rík áhersla á að bíllinn sé frá upphafi það sterkur og vel búinn að hann fái fimm stjörnur í árekstursprófi Euro NCAP. Ef það tekst verður Qoros fyrsti kínverski fimm stjörnu bíllinn nokkru sinni.

Sá bíll sem þessar teikningar sýna er fólksbíll í C-stærðarflokki (VW Jetta). Hann er langur milli öxla en slútun yfir öxla er fremur stutt. Hönnuðurinn Hildebrand lýsir bílnum sem glæsilegum og eftirsóknarverðum. Aksturstilfinningin verði „þýsk“ og einfaldleikinn allsráðandi í útlitinu. Innréttingin verði hefðbundin og látlaus og mælaskífur kringlóttar með tölum og vísum (analog). Takkafjölda í mælaborði verði haldið í skefjum með því að stjórna miðstöð, útvarpi og ýmsu öðru um snertiskjá.

Áætlað er að byggja 150 þúsund Qoros bíla fyrsta starfsárið en full afkastageta verksmiðjunnar verður 450 þúsund bílar árlega.