Ræsir hf. í samstarf við Robert Bosch

http://www.fib.is/myndir/Bosch-logo.jpg

Ræsir hf. hefur gengið til samstarfs við Robert Bosch A/S um sölu á varahlutum í bíla á Íslandi. Ræsir er gamalgróið fyrirtæki á íslenska vísu, stofnað 1942 og var einkaumboðsaðili fyrir Mercedes Benz bifreiðar frá árinu 1954 og þar til fyrir fáum árum. Þótt innflutningur bíla frá útflutningsdeild Mercedes í Stuttgart sé nú í höndum annars fyrirtækis er Ræsir áfram sölu- og þjónustuaðili fyrir DaimlerChrysler bíla, þar á meðal eru bílar af tegundinni Mercedes Benz, Chrysler, Jeep. o.fl.

Samstarf Ræsis og Robert Bosch A/S felur í sér að Ræsir byggir upp svonefnt Bosch Car Service þjónustuverkstæði fyirr bíla. Bosch Car Service er keðja bifreiðaverkstæða á heimsvísu, rómuð fyrir fagmennsku. Á kynningarfundi með fréttamönnum sögðu þeir Hallgrímur Gunnarsson eigandi og framkvæmdastjóri Ræsis og Hjörtur Jónsson verkefnisstjóri að Ræsir hefði kosið að ganga til liðs við Bosch Car Service til þess að efla þjónustu sína við bifreiðaeigendur og skipa sér í fremstu röð bifreiðaverkstæða á Íslandi. Bosch er nú stærsti framleiðandi raf-, eldsneytis- og hemlakerfa fyrir bifreiðar í veröldinni, en auk þess framleiðir Bosch hverskonar aukabúnað fyrir bifreiðar, raftæki og verkfæri fyrir iðnað og heimili og margt fleira,

Til að halda utan um hina miklu íhlutaframleiðslu sína fyrir bifreiðar rekur Bosch gríðarmikinn Nettengdan gagnagrunn yfir alla þá hluti sem flestir bílar veraldar eru samsettir úr. Gildir þar einu hvort eða að hve miklu leyti bíllinn er búinn íhlutum frá Bosch. Nú er unnið að uppbyggingu þessa kerfis hér á landi og verður Ræsir tengdur því. Í fyllingu tímans verður þannig mögulegt að bilanagreina bíla á Bosch Car Service verkstæði Ræsis. Um leið verður hægt að leita í gagnagrunninum að nýjum hlut í stað þess sem greinist bilaður, hvar hann er fáanlegur í veröldinni og panta hann, sé hann ekki fáanlegur á Íslandi þá stundina.

Robert Bosch A/S er ekki fyrirtæki á hlutabréfamarkaði heldur er það í eigu sjálfseignarstofnunar og er hagnaði þess varið til margskonar mála í almannaþágu um heim allan, ekki síst mála sem tengjast menntun, menningu og almennri velferð. Hallgrímur sagði við fréttamenn að ákvörðun um samvinnu Ræsis við Bosch hafi verið tekin samfara byggingu nýs húsnæðis Ræsis að Krókhálsi 11 sem væntanlega verður tekið í notkun um áramótin. Meginástæða þessarar ákvörðunar væri sú að Bosch byggi yfir mjög yfirgripsmikilli þekkingu og gríðarlegu varahlutaúrvali.

Samningurinn felur í sér að starfsmenn Ræsis fá alla nauðsynlega þjálfun hjá Bosch er snýr að varahlutum, bilanagreiningu og viðgerðum í fjölmörgum tegundum bifreiða. Sú þjálfun er þegar hafin. Og eins og önnur Bosch Car Service verkstæði verður verkstæði Ræsis gæðavottað samkvæmt ISO-staðli.

Bosch er einnig leiðandi í framleiðslu bilanagreiningatölva sem nauðsynlegar eru á nútíma bifreiðaverkstæðum. Ræsir kemur til með að selja slík tæki til verkstæða á Íslandi og munu verkstæðin síðan geta leitað til Ræsis sem flett getur upp í Bosch gagnagrunninum sem fyrr er nefndur, að viðeigandi varahlutum og hvar þá er að finna.

Ræsir hefur þegar hafið innflutning á varahlutum frá Bosch og verður sá innflutningur eðli málsins samkvæmt stóraukinn þegar flutt verður úr núverandi húsnæði Ræsis við Skúlagötuna í nýja húsnæðið að Krókhálsi 11.
http://www.fib.is/myndir/R%E6sir-Kr%F3kh%E1ls.jpg
Svona munu nýjar höfuðstöðvar Ræsis við Krókháls líta út fullbyggðar.