Raf- og vetnisbílarall í Berlín

Rafbíllinn Renault Fluence Z.E sigraði í gær í 300 kílómetra rallkeppni mjög umhverfismildra farartækja sem haldin var í tengslum við Challenge Bibendum ráðstefnuna sem lýkur í Berlín nú um helgina.

Ökuleiðin var um Berlínarborg og nánasta umhverfi hennar og hófst og endaði í Brandenborgarhliðinu sögufræga. Farartækin sem þátt tóku voru margskonar. Þar voru hreinir rafbílar eins og sigurbíllinn en líka vetnisbílar og rafbílar með efnarafal sem breytir vetni í rafmagn sem knýr bílinn. Renault Fluence Z.E.’s er eins og Nissan Leaf, hreinn rafbíll þar sem rafmagn frá líþíumrafhlöðum knýr hann áfram.

http://www.fib.is/myndir/Sigurvegarar.jpg
Sylvie Savornin aðstoðarökumaður og
Gregory Fargier ökumaður.

Challenge Bibendum er haldið árlega á vegum Michelin hjólbarðaframleiðandans og hafa fræðimenn Michelin reiknað út CO2 „fótspor“ bílsins. Samkvæmt þeirra niðurstöðum jafngildir hver ekinn kílómetri bílsins því að hann gefi frá sér 57 grömm af CO2 á kílómetrann. Það er um 8 prósentum minna en sérfræðingum Renault hafði reiknast til og nokkru lægra gildi en tvinn- og efnarafalsbílarnir ná.

Þegar talað er um CO2 fótspor rafbíla er það m.a. tekið með í reikninginn hvernig raforkan er búin til – hvort það er framleitt með því að brenna jarðefnaeldsneyti, nýta kjarn- eða vindorku eða fallorku vatna, o.s.frv. En CO2 mengun frá bílnum sjálfum er að sjálfsögðu engin

Auk þess að sigra í rallinu var Renault Fluence Z.E. einnig í beinu framhaldi af rallkeppninni tekinn til kostanna á akstursbraut sem ADAC, systurfélag FÍB í Þýskalandi á við Tempelhof í Berlín. Þar reyndist Fluence ná besta brautartímanum og vera um fimm sekúndum fljótari að fara brautarhringinn en hraðskreiðustu Tesla sportbílarnir. Auk þess mældist hann hafa bestu orkunýtnina af þeim rafbílum sem tóku þátt í rallinu en hann eyddi 37,44 kílóWattstundum í bæði keppninni og á kappakstursbrautinni. Í frétt frá Renault segir að þessi árangur sé bæði mjög góðum rafhlöðum og rafmagnskerfi að þakka en líka ökumanninum Gregory Fargier, sem er tilraunaökumaður hjá Renault, og aðstoðarökumanninum Sylvie Savornin sem er hátt sett í fjármáladeild Renault.