Rafbílaframleiðandinn Think færist í aukana

Það virðist vera talsverður gangur í málunum hjá rafbílaframleiðandanum Think í Noregi. Hjá Think er sérstök hönnunar- og þróunardeild þar sem starfa um 70 manns. Nú er þessi deild, ásamt markaðsdeild og yfirstjórn Think, að flytja í nýtt húsnæði í Fornebu utan við Oslo, þar sem millilandaflugvöllur Oslóborgar var áður. Um leið stækkar deildin verulega og 30-50 nýjar stöður verða til við að hanna og þróa nýjar gerðir rafbíla.

 Think rafbílaframleiðslufyrirtækið er upphaflega norskt en á sínum tíma keypti Ford það og rak í nokkur ár með litlum árangri. Norskt félag keypti Think af Ford fyrir fáum árum og flutti aftur til Noregs. Síðan hefur leiðin legið upp á við og greinilegt að Norðmenn ætla sér umtalsverðan hlut í rafbílaframleiðslu heimsins næstu árin.

 Talsmaður Think-félagsins segir við Auto Motor & Sport í Svíþjóð að á nýja staðnum fái þróunardeildin til umráða miklu betri aðstöðu en áður, m.a. aðstöðu til að prófa bílana við mismunandi hitastig. Þá sé til staðar aksturshermir sem líkir eftir mismunandi akstursaðstæðum og landslagi og sérstök rannsóknastofa til að gera tilraunir með hverskonar rafmagns- og rafeindabúnað. Þessi aðstaða muni hleypa nýju lífi í allar tilrauna- og þróunarvinnu sem muni skila nýjum og betri rafbílum.

 Think rafbílarnir hafa fram undir þetta verið byggðir í Noregi  en framleiðslan er nú að flytjast til framleiðsluverktakafyrirtækisins Valmet í Finnlandi sem byrjað er að framleiða rafbílinn Fisker fyrir Bandaríkjamarkað og hefur framleitt m.a. Boxter og Cayman bíla fyrir Porsche. Þá er í bígerð að hefja framleiðslu á Think rafbílum í Bandaríkjunum eins og fréttavefur FÍB hefur áður greint frá. Framleiðslan þar hefst á næsta ári og verður í bænum Elkhart í Indianapolis.

 Mikil markaðssókn er nú hafin hjá Think og Think rafbílar koma á þessu ári á almennan bílamarkað í Evrópu. Meðal Evrópulanda þar sem Think verður í almennri sölu á næstu vikum og mánuðum eru Danmörk, Svíþjóð, Noregur, Spánn, Holland, Belgía og Austurríki.