Rafbílafyrirtækið Better Place gjaldþrota

Danska sjónvarpið greindi frá því í gær að rafbílafyrirtækið Better Place væri gjaldþrota. Better Place tók til starfa í Danmörku árið 2009. Markmið þess var að setja upp rafhleðslu- og rafgeymaskiptistöðvar um alla Danmörku og rafvæða danska bílaflotann.

Stofnandi Better Place var ísraelskur kaupsýslumaður úr tölvugeiranum; Shai Agassi að nafni. Eftir fjögurra ára starfsemi í Danmörku er staðan sú að búið er að koma upp 17 hleðslu- og rafhlöðuskiptastöðvum og eyða tæplega 850 milljónum dollara með þeim árangri að hafa einungis náð 219 þjónustuþegum í föst viðskipti í stað þeirra a.m.k. 15 þúsund Better Place rafbíla sem áætlanir gerðu ráð fyrir að nú væru þegar í notkun og yrðu orðnir 500 þúsund árið 2020.

Megininntak þeirrar viðskiptahugmyndar sem Better Place var byggt á, var að rafbílarnir yrðu með útskiptanlegum rafhlöðupakka sem bíleigendur tækju á leigu. Þeir greiddu síðan fasta mánaðarlega upphæð í leigu og fyrir rafmagn á þær og hin mánaðarlega upphæð réðist af því hversu mikið væri ekið. Gerður var samningur við Renault um framleiðslu á rafbílnum Renault Fluence Z.E. Talsverðar tafir urðu á því að framleiðslan hæfist en eftir að allt var tilbúið hjá Renault létu kaupendur bílanna á sér standa. Í dag eru einungis 219 Fluence bílar á skrá í Danmörku og eftir gjaldþrotið í gær eru eigendur þeirra í óvissu með hvað við tekur, því að þrotabúið á geymana í þeim og án þeirra eru bílarnir algerlega ónothæfir. Þá er alls óvíst með hvort skipti- og hleðslustöðvarnar 17 verði reknar áfram. Sú óvissa er reyndar sú sama annarsstaðar í Evrópu og Ísrael þar sem Bettur Place var með starfsemi.

Renault í Evrópu sendi svo frá sér yfirlýsingu í morgun. Í henni segir að séð verði til þess að eigendur Renault Fluence bíla í orkuáskrift hjá Better Place verði jafnsettir eigendum annarra Renault rafbíla eins og t.d. Kangoo, Zoe og Twizy. Í þeim bílum eru rafgeymarnir eign Renault en leigðir eigendum bílanna.

Í yfirlýsingu sem forstjóri Better Place sendi fjölmiðlum í gærkvöldi er gjaldþrotið harmað. Forstjórinn segir að ekki hafi tekist að hitta á rétta augnablikið til að rafvæða danska bílaflotann og móðurfélagið hafi ekki haft bolmagn til að tryggja langtímafjármögnun þangað til markmiðin næðust.

Margur danskur bílamaðurinn hefur lengi verið lostinn furðu yfir bjartsýnum áætlunum ráðamanna Better Place. Áætlanir þeirra um hálfa milljón bíla fyrir árið 2020 og pöntun á 100 þúsund Renault Fluence bílum hefðu verið algerlega út úr kú. Það hefði mátt vera ljóst í upphafi og reyndar sýndi reynslan það nú, því að einungis eru á skrá í heiminum öllum um það bil 3.500 Renault Fluence rafbílar.

Martin Lidegaard loftslags- og orkumálaráðherra Danmerkur segir við Danska útvarpið í morgun að gjaldþrotið sé dapurlegt og muni seinka rafbílavæðingunni í landinu. En engu að síður eigi rafbílar framtíðina fyrir sér og eigi eftir að verða eftirsótt farartæki.