Rafbílar fyrir páfastól

Carlos Ghosn forstjóri Renault afhenti þann 5. sept. Benedikt páfa 16. í Róm nýjan rafknúinn páfabíl sem er sérstaklega hugsaður til styttri ferðalaga. Afhendingin fór fram við sumarhöll páfa; Castel Gandolfo

Bíllinn er að stofni til Renault Kangoo Maxi Z.E. en endurbættur og aðlagaður að þörfum páfa af franskri bílasmiðju sem heitir Gruau. Auk þessa bíls gaf Renault einnig lífvörðum páfa svipaðan rafbíl til að nota til eftirlits og gæslu öryggis páfa.

http://www.fib.is/myndir/Renault-pafi3.jpg
http://www.fib.is/myndir/Renault-pafi2.jpg

Nýi Renault páfabíllinn er hvítur að lit. Hann er 4,6 m langur og 1,8 m að breidd. Rafmótorinn er 60 hö og líþíum-jónarafhlöðurnar eiga að duga til 170 km í blönduðum akstri.

Í bílunum hvorum um sig eru sæti fyrir fjóra. Aftur í þeim eru tveir mjög þægilegir stólar og yfir þeim er opnanlegur toppur. Einnig má fjarlægja hliðarrúðurnar þannig að bíllinn er þá að mestu opinn. Þegar stigið er inn í hann og út, koma tröppur út úr hliðunum til að auðvelda inn- og útstig.

Stjórnendur Renault færðu páfa bílana tvo að gjöf. Tilefnið er það að hans heilagleiki Benedikt páfi 16. hefur ítrekað lýst yfir að nauðsynlegt sé að stuðla að sjálfbærri þróun í samgöngum og umhverfismildum farartækjum til að skaða sjálft sköpunarverkið sem minnst

Carlos Ghosn forstjóri Renault sagði að með þessari gjöf vildi Renault líka styrkja ímynd sína bílaframleiðandi með eindreginn vilja til að stuðla að sjálfbærri þróun og ganga fram með virðingu fyrir náttúru og umhverfi.