Rafbílar óhollari umhverfinu en bensínbílar?

Samkvæmt nýrri norskri rannsókn geta rafbílar verið mun óhollari fyrir umhverfið en sambærilegir bensínknúnir bílar. Það fer algerlega eftir því hvernig rafmagnið á þá er framleitt. Sé rafmagnið „grænt“, framleitt með sólar-, vind-, eða orku fallvatna eru þeir umhverfismildari en ekki ef raforkuverið brennir kolum eða olíu.

Flestir hafa það fyrir satt að rafbílar hafi mun mildari umhverfisleg áhrif en bílar sem brenna jarðefnaeldsneyti og þannig eru þeir nánast alltaf auglýstir. Rannsóknin, sem gerð var á vegum norska náttúruvísinda- og tækniháskólanum NTNU, hrekur að nokkru þessa glansmynd. Rafbílar geti hæglega haft talsvert skaðlegri áhrif á umhverfið en sambærilegir bensín og dísilbílar.

Rannsókn NTNU tók til allrar ævi bílanna, allt frá því að bíll er framleiddur til þess að hann er úr sér genginn og er settur í eyðingu. Það sýnir sig þá að sjálf framleiðsla rafbíls er mun meira mengandi en framleiðsla venjulegra bíla. Í bæði rafhlöðum og rafmótorum er mikið af eitruðum efnum eins og nikkel, kopar  og ál auk þungmálma ýmissa. Rafbílarnir hafi því valdið talsverðri mengun áður en þeir urðu notkunarhæfir og komust í umferð. Misjafnt sé hins vegar í hve miklum mæli framleiðendur nýti „grænt“ rafmagn við framleiðsluna en í þeim efnum séu evrópskir framleiðendur fremstir. Þeir sem leggi sig fram um að nýta það eingöngu við framleiðsluna lækki þar með ævilangan mengunarstuðul bílsins og nái að koma honum niður fyrir mengunarstuðul beinsín- og dísilbílanna.

Rafbíll sem bæði er framleiddur og síðan keyrður 200 þúsund kílómetra á „grænu“ rafmagni  gefur frá sér um 29 prósent minna af gróðurhúsalofttegundum en sambærilegur bensínbíll og 20 prósent minna en dísilbíll. En gallinn er bara sá að rafhlöðurnar duga sjaldnast til 200 þúsund km aksturs og þar með rýkur þetta forskot rafbílanna út í veður og vind.

„Sért þú að hugsa um að fá þér rafbíl af því hann er mildari við umhverfið þá ættirðu að athuga fyrst hvaðan rafmagnið á bílinn á að koma. Athugaðu síðan vandlega hvernig ábyrgðin er á rafhlöðunum í bílnum,“ segir Anders Hammer Strømman prófessor og einn vísindamannanna sem gerðu rannsóknina, við BBC.