Rafbílarnir í Osló

Frá ársbyrjun til og með 19. mars hafa 21.763 nýir bílar verið nýskráðir í Noregi. Allmargir rafbílar eru þeirra á meðal og sá vinsælasti af rafbílunum er Nissan Leaf. Af honum voru nýskráðir 533 bílar.

Rafbílar njóta margvíslegs forgangs í umferðinni í Noregi. Þeim má aka eftir akreinum sem sérstaklega eru ætlaðar strætisvögnum, ekki þarf að greiða fyrir þá fargjald í ferjum sem eru hluti af norska vegakerfinu, ekki þarf að greiða af þeim vegatolla og ekkert kostar að leggja þeim í stæði. Í miðborg Osló eru yfir þúsund ókeypis stæði, flest með rafmagnstengli, einvörðungu ætluð rafbílum. Loks leggjast ekki nein innflutnings- og skráningargjöld á nýja rafbíla. Allt stuðlar þetta að því að gera kaup á rafbíl áhugaverð, ekki síst fyrir þá sem starfa í úthverfum og grannbæjum helstu borganna en sækja vinnu í miðborginni.

Í austurhluta Oslóborgar í hæðunum austanmegin við Oslófjörðinn býr fjárhagslega vel sett fólk. Hinar dæmigerðu fyrirvinnur heimilanna á svæðinu eru vel menntað fólk sem gegnir ábyrgðarstöðum á vinnustöðum í miðborg Oslóborgar. Þarna eru dýrar gerðir bíla af tegundum eins og Mercedes, Lexus, Porsche, BMW og Audi fleiri á hvern hektara en nokkurs staðar annarsstaðar í Noregi. En þarna eru líka fleiri rafmagnsbílar samankomnir en annarsstaðar í landinu.

Ástæðan er einföld: Hún er sú að rafbílarnir henta afskaplega vel til að skjótast á til vinnu í miðborginni og heim aftur. Í stað þess að fara á venjulegum bíl sem tekur 1-2 klst. á háannatímunum að morgni til vinnu og allt að því annað eins síðdegis í bakaleiðinni, eða þá að taka strætisvagn sem að meðtaldri göngu að og frá stoppistöðvum tekur kannski 45 mínútur, þá er rafbíllinn lang fljótastur í förum. Á rafbílnum brunar fólk eftir strætóbrautunum fram úr öllum umferðarhnútunum og er í allra mesta lagi hálftíma hvora leið og ekkert stæðavandamál í áfangastað. Þetta getur þýtt að rafbílsökumaðurinn hefur minnst tveimur klukkustundum lengri tíma til að eyða með fjölskyldunni og börnunum heima heldur en ef hann færi á Benzanum. Rafbíllinn er þannig orðinn snattbíll þeirra best settu í samfélaginu – í það minnsta á norska höfuðborgarsvæðinu.