Rafbíll eða brunahreyfilsbíll

Fyrst eftir 10 ár kemst á verðjafnvægi milli rafbíla og bensínknúinna bíla. Þangað til munu rafbílar verða einungis þrjú til fjögur prósent seldra nýrra bíla. Þetta kom fram í máli dr. Wolfgang Steiger á umferðarráðstefnu í Stokkhólmi nýlega.

Dr. Wolfgang Steiger er einn þeirra sem stjórna vélaþróunarmálum hjá Volkswagen. Hann var spurður um hvort og hvenær hreinir rafbílar ættu eftir að lækka í verði og kosta það sama og bensínknúnir samskonar bílar: „Já. 2020 teljum við,“ svaraði Steiger stutt og laggott. Hann sagði ennfremur að ekkert benti til þess að raunveruleg fjöldaframleiðsla rafbíla sem stæði undir nafni hæfist fyrr en 2020. Og fyrr en hún hæfist yrðu rafbílar mjög dýrir vegna þess að framleiðslan er enn svo lítil að kostir fjöldaframleiðslunnar nýtast ekki.

Hreinir rafbílar eru vissulega fáanlegir í dag, eins og t.d. Nissan Leaf, Mitsubishi iMIEV o.fl. og er raunverulegt verð þeirra mjög hátt. Söluverð til neytenda er þó yfirleitt miklu lægra vegna þess að rafbílar eru víðast hvar undanþegnir aðflutnings- og skráningargjöldum og sum ríki jafnvel gefa með þeim til að örva útbreiðslu þeirra. En þrátt fyrir þessar ívilnanir eru þeir enn talsvert dýrari en sambærilegir bensín- og dísilbílar.

Enda þótt doktor Steiger sjái ekki fyrir sér neina stórsölu á rafbílum næstu tíu árin þá leggur hann áherslu á að rafbílarnir séu framtíðin, enda sé rafvæðing bílanna mikil nauðsyn. Ef losna eigi við CO2 útblástur frá bílum komi einfaldlega ekkert annað til greina en rafmagnið. Engin önnur tækni sé til né í sjónmáli.

Þróunarvinna og tilraunir með rafbíla eru þegar orðnar umfangsmiklar hjá Volkswagen. Næstu þrjú til fimm árin mun VW (og Audi, Skoda og Seat) efla mjög framleiðslu raf- / bensín- og raf / dísil-tvinnbíla. Þeir munu fyrst koma á markað í Bandaríkjunum en þvínæst á öðrum markaðssvæðum. Steiger sagði að tvinntæknin væri mjög heppileg til nota í allt frá stórum bílum og til og með bílum af Golf stærð. Rafbílarnir verða þó ekki afskiptir næstu þrjú til fimm árin hjá VW, því nýi smábíllinn VW Up í rafmagnsútgáfu verður fáanlegur hverjum sem kaupa vill frá árinu 2013 og VW Golf frá og með árinu 2014.

Steiger var spurður um útskiptanlegar rafhlöður í rafbílum og hleðslustöðvar þar sem hægt er að renna inn og láta taka tómar rafhlöður út og skella fullhlöðnum inn í þeirra stað. Steiger sagði þá hugmynd ekki ganga upp. Öflugri rafhlöður væru hvergi í sjónmáli og sú litla orka sem mögulegt er að geyma í rafhlöðunum um borð í bílunum sé ekki meiri en svo að troða verður rafhlöðum í hvert einasta finnanlegt rými í bílunum fyrir þær. Ef ætti að staðla útskiptanlega rafhlöðupakka myndi amk. 50 kílómetra drægi tapast.

Aðspurður um framtíð vetnisins og efnarafala til að auka drægi rafbílanna vildi Steiger ekki útiloka vetnið en sagði að margir erfiðleikar væru fylgifiskar vetnisins. „Því til viðbótar er heildarorkunýting efnarafalsbíla þrefalt rýrari en rafhlöðubílanna,“ sagði Wolfgang Steiger ennfremur.