Rafbíllinn Audi e-tron fáanlegur 2012

 Hjá Audi hafa menn ákveðið sig með að raungera rafmagnssportbílinn e-tron sem afhjúpaður var á bílasýningunni í Frankfurt í sept. sl. sem hugmyndarbíll. Ekki verður þó um  neina fjöldaframleiðslu að ræða því einungis verða byggðir að hámarki þúsund bílar eftir því hvernig pantanir skila sér. Verð hvers bíls hefur ekki verið gefið upp en sagt að það verð hærra en fyrir sportbílinn R-8. E-tron vagnarnir verða afhentir kaupendum á fyrri hluta ársins 2012.

 Rafbíllinn Audi e-tron vakti mikla athygli á Frankfurtsýningunni í haust. Bíllinn er að nokkrum hluta rafmagnsútgáfa af sportbílnum R-8, með fjóra mótora, einn fyrir hvert hjól og aflið er samtals 313 hestöfl.

Í honum verða 53 kílóWatta líþíumrafhlöður sem duga eiga til 250 kílómetra aksturs. Viðbragð úr kyrrstöðu í hundraðið er sagt munu verða 4,8 sekúndur og hámarkshraðinn 200 km á klst. Þyngd bílsins þegar hann er tilbúinn til aksturs verður 1600 kíló. Þar af er þyngt rafgeymanna og stýri- og kælibúnaðar fyrir þá um 470 kíló.

Sá sem verður ábyrgur fyrir framleiðslu bílsins heitir Gerhard Wagner. Hann segir að stýribúnaðurinn verði nokkuð flókinn því hann þarf að sjá til þess aðallir rafmótorarnir fjórir vinni saman á hárréttan hátt. Spurður um þyngdina segir hann að með tíð og tíma muni rafgeyma- og rafstýritæknin þróast og verða léttari og fyrirferðarminni og síðast en ekki síst ódýrari með vaxandi fjöldaframleiðslu. En til að halda þyngdinni niðri sé burðarvirki bílsins úr áli og koltrefjaefnum og yfirbyggingin úr plasti sem styrkt er með koltrefjum.