Rafbíllinn hlaðinn á 1,5 klst.

Einn erfiðasti þröskuldurinn að yfirstíga fyrir rafbílana er hleðslutíminn. Aðrir tveir erfiðir þröskuldar að yfirstíga er óviðunandi stutt drægi á hleðslunni og hátt verð sjálfra bílanna en einkum þó geymanna. Verulega hefur þó áunnist í því að lækka þessa þröskulda og varla líður sú vika nú að ekki berist fregnir af stöðugt betri árangri í þessum efnum.

Þessar vikurnar gerir Volvo í Svíþjóð tilraunir með nýja gerð hraðhleðslutækja fyrir rafbíla. Þeim er stungið í samband við 32 ampera þriggja fasa innstungu sem gefur 22 kílóWött við 400 volta spennu. Tækið gerir þá mögulegt að hlaða tóma geymana upp á einum og hálfum tíma og komast þetta 80-100 kílómetra til viðbótar, í stað ca. átta tíma ef stungið er í samband við venjulega þvottavélarinnstungu.

Lennart Steglund framkvæmdastjóri rafbílaþróunardeildar Volvo segir í frétt frá Volvo að menn geri sér grein fyrir því að stuttur helðslutími og langdrægi séu mjög mikilvægir eiginleikar í hugum hugsanlegra rafbílakaupenda. Hraðhleðslutækið ætti að draga úr ótta ökumanna við að stranda í tíma og ótíma vegna straumleysis. Hraðhleðslutækið geri það mögulegt að stinga bílnum mun oftar í samband yfir daginn og auki verulega notagildi og daglegt drægi rafbílsins.

Nýja hraðhleðslutækið sem samkvæmt frétt frá Volvo er fyrsta þriggja fasa hleðslutækið í rafbíl, verður nú í tilraunaskyni sett í allmarga Volvo C30 rafbíla. Þess er vænst að það auki mjög notagildi bílanna. Notandi bílsins getur fyllt á geymana nokkrum sinnum á dag og daglegt heildardrægi bílsins eykst verulega og orkan er miklu ódýrari en hefðbundið jarðefnaeldsneyti, segir Lennart Steglund.