Rafbíllinn Jauguar I-Pace heimsbíll ársins

Rafbíllinn sportjeppinn Jaguar I-Pace var kjörinn „Heimsbíll ársins 2019“ (World Car of the Year) við upphaf bílasýningarinnar í New York sem hófst í síðustu viku og stendur til sunnudags. Auk aðalverðlaunanna hlaut I-Pace hönnunarverðlaun ársins, (World Car Design of the Year) og umhverfisverðlaun ársins sem Grænasti bíll ársins 2019 (World Green Car of the Year). Árið 2017 var Jaguar F-Pace kjörinn Heimsbíll ársins.

Jaguar I-Pace er ekki aðeins Heimsbíll ársins heldur einnig Bíll ársins í Evrópu 2019, en þau verðlaun hlaut bíllinn við upphaf bílasýningarinnar í Genf í byrjun mars. Alls hefur I-Pace unnið á sjötta tug alþjóðaverðlauna frá því að Jaguar kynnti bílinn fyrir aðeins rúmu einu ári síðan.

I-Pace hefur verið tekið með kostum og kynjum síðan bíllinn fór á markað, sérstaklega í Evrópu þar sem 75% bílanna eru seldir og innviðauppbygging hleðslustöðva er orðin þróuð. Um er að ræða einn tæknilega fullkomnasta rafbíl heims sem sett hefur alveg nýjan viðmiðunarstaðal í bílgreininni. 

Mikil drægni og orka

I-Pace er fjórhjóladrifinn fimm sæta sportjeppi með tvo rafmótora og 90kW rafhlöðu sem unnt er að hlaða frá 0-80% á innan við 45 mínútum með DC 100kW hleðslutæki. Bíllinn er um 400 hestöfl og innan við 5 sekúndur að ná 100 km hraða frá kyrrstöðu í 100 km/klst.

Rafmótorar I-Pace skila um 90% orku rafhlöðunnar beint til hjólanna, en til viðmiðunar skila sér einungis milli 30% og 40% orku bensín- og dísilbíla til hjólanna. Afgangurinn eyðist í viðnámi hinna fjölmörgu vélarhluta sem rafbílar eru að mestu lausir við. Drægni I-Pace er um 470 km (WLTP) og er bíllinn því einstaklega hagkvæmur til daglegra nota hvort sem er í bæjum, borgum eða dreifbýlum sveitum þar sem aðgangur er að hleðslu.