Rafbíllinn KIA EV6 bíll ársins í Evrópu

Rafbíllinn KIA EV6 er bíll ársins í Evrópu 2022. Tilkynnt var um valið í Palexpo sýningarhöllinni í Genf í Sviss en þar hefur farið fram ein stærsta bílasýning um árabil. Sýningunni var hins vegar frestað þriðja árið í röð vegna heimsfaraldursins. Dómnefndin er skipuð yfir 60 blaðamönnum frá 22 löndum á vettvangi farartækja í Evrópu. Rússland var útilokað frá valinu að þessu sinni.

EV6 er fyrsti bíll Kia til að hljóta þessi virtu verðlaun og þriðji rafbíllinn frá upphafi. Kia EV6 hlaut alls 279 stig en hann keppti við sex aðra bíla um titilinn í úrslitavalinu. Keppnin um þrú efstu sætin var hörð en í öðru sæti varð hinn nýi Renault Megane E-Tech með 265 stig, en þriðji var systurbíll EV6, Hyundai Ioniq 5 með 261 stig. Valið um bíl ársins hefur verið haldið allar götur síðan 1965.

Hinir fjórir voru talsvert neðar í stigum en fjórði var Peugeot 308 með 191 stig, Skoda Enyaq með 185 stig, Ford Mustang Mach-E með 150 stig og loks Cupra Born með 144 stig.

,,Það er óvæntur en mikill heiður að Kia EV6 hljóti þennan stóra titil. Kia á það sannarlega skilið því það hefur verið unnið ötullega að því að gera Kia EV6 að því sem hann er. Framfarir Kia eru miklar og það skilar sér í þessum sigri," segir Frank Janssen, forseti Car of the Year verðlaunanna.

EV6 er aflmikill rafbíll og hægt er að velja um 170 og 325 hestafla rafmótor. Hægt er að hlaða bílinn allt að 80% hleðslu á aðeins 18 mínútum og ná hleðslu sem dugar allt að 100 km á innan við fjórum og hálfri mínútu. EV6 er í boði bæði aftur- og fjórhjóladrifinn.