Rafbíllinn við það að verða samkeppnishæfur

Á ráðstefnu um framtíðarsamgöngur í Kaupmannahöfn fyrr í vikunni töldu þátttakendur að rafbíllinn væri við það að slá í gegn. Stutt væri í það og styttra en margur telur, að hverskonar rafbílar yrðu raunverulega samkeppnishæfir við jarðefnaeldsneytisknúna bíla. Á ráðstefnunni var fjallað um allar gerðir rafbíla, svo sem bíla sem rafgeymabíla, vetnisrafbíla og hverskonar tvíorkubíla.

Ráðstefnan var haldin að frumkvæði Danmerkurdeildar alþjóðlega bílaleigufyrirtækisins LeasePlan sem sérhæft er í langtímaleigu á bílum til fyrirtækja og einstaklinga. Frummælendur voru úr flestum geirum samgangna og voru meira og minna sammála um að rafbílar ættu eftir að leysa hefðbundna bíla af hólmi.

Einn frummælenda var Nille Juul-Sørensen sem er einn af hönnuðum nýja Metro lestakerfisins í Kaupmannahöfn. Hann gagnrýndi hinn hefðbundna bílaiðnað fyrir íhaldssemi og fyrir að vera svifaseinn að tileinka sér nýjar hugmyndir. En þær miklu og fjölbreyttu rannsóknir og tilraunir undanfarinna ára á samgöngu- og samgöngusviðinu sem ekki bara lúta að tækninni heldur líka að þörfum og væntingum almennings, ættu fyrr en marga grunar eftir að skila almenningi góðum og hagkvæmum rafbílum. “Eftir 3-4 ár verða fáanlegir rafbílar sem komast 500 kílómetra á hverri hleðslu,” sagði Nille Juul-Sørensen.

Hann sagði ennfremur að eignarhald á bílum ætti eftir að breytast verulega á næstu örfáu árum, sérstaklega í borgarsamfélögunum í takti við tækniþróunina. Það fyrirkomulag sem kallast Zipcars ætti eftir að styrkjast verulega. Zipcars er orð sem notað er yfir það að eiga ekki bíl sjálfur heldur eiga aðild að einskonar bílasamlagi eða samvinnufélagi. Þegar mann svo vantar bíl um lengri eða skemmri tíma bókar maður hann á Internetinu og nálgast hann síðan á tilteknum stöðum og skilar aftur að notkun lokinni. Með þessu losnar borgarbúinn við það að eiga sjálfur bíl og við allt það óhagræði sem bíleign fylgir í þéttbýlum borgum, svo sem geymsluvandamál og umstang við almennt viðhald einkabílsins.