Rafgeymarnir þröskuldurinn

http://www.fib.is/myndir/Tesla_roadster2.jpg
Tesla Roadster rafmagnssportbíll.

Þótt gamall frumkvöðull um rafbíla hafi misst trúna á því að rafbílar eigi eftir að leysa bensín- og dísilbíla af hólmi eins og kemur fram í fréttinni næst á undan þessari, þá bendir ýmislegt til að hann hafi hreint ekki rétt fyrir sér. En það er sannarlega rétt hjá honum að rafgeymarnir hafa alla tíð verið sá þröskuldur sem rafbíllinn hefur alla tíð strandað á, en það er tekið að sjást í ljósið við enda ganganna.

Þegar rafmótor er borinn saman við hefðbundinn brunahreyfil koma í ljós fjölmargir kostir sem rafmótorinn hefur umfram venjulega bílvél. Rafmótorinn er miklu nýtnari á orkuna, í honum eru miklu færri hreyfanlegir hlutar, hann er miklu léttari og miklu afl- og vinnslumeiri en brunahreyfillinn miðað við þyngd.

Hinn veiki punktur rafbílsins eru rafgeymarnir. Þeir hafa alla tíð verið allt of þungir, allt of fyrirferðarmiklir, þeir hafa allt of litla orkurýmd og hleðslutíminn er allt of langur. Ókostir rafgeymanna hafa alla tíð verið sá hái þröskuldur í vegi fyrir því að rafbílar gætu orðið samkeppnishæfir við brunahreyfilsbíla. Fyrsta verulega framförin er fólgin í líþíum-jónarafhlöðunum sem eru mjög nýlega til komnar. Fjöldi vísindamanna um allan heim, á vegum fyrirtækja og háskóla, vinnur nú að því að þróa rafgeyma og varla líður sú vika að ekki berist fregnir af betri og betri rafgeymum.

Í fyrrakvöld sýndi þýska sjónvarpsstöðin ZDF mjög góðan þátt um rafbíla og rafgeyma í þá. Fjallað var um ýmsar tegundir og gerðir rafbíla og rafgeyma og rætt var við fjölda fólks sem að þessum málum kemur. Af vandaðri samantekt þýsku sjónvarpsstöðvarinnar má ráða að stórstígar framfarir hafa orðið í gerð öflugra og léttra rafgeyma á stuttum tíma og enn meiri framfarir eru í sjónmáli. Af umfjölluninni má ráða að tvinnbílar (rafbílar með eigin bensín- eða dísilrafstöð um borð í bílnum) gætu orðið óþarfir og úreltir innan tiltölulegra fárra ára og hreinir rafbílar tekið við. Þeir sem skilja þýsku geta lesið um málið og séð sjónvarpsmyndir á heimasíðu sjónvarpsstöðvarinnar ZDF.