Rafhleðslustöðvar við hraðbrautir

Þeir sem leggja út í ferðalög um þýskar hraðbrautir á rafbílum mega smám saman vænta þess að fá aðgang að fleiri hraðhleðslustöðvum á þjónustu- og hvíldarstöðvum meðfram hraðbrautum Þýskalands. Nú hafa ADAC, hið þýska systurfélag FÍB, og rekstrarfélag þjónustu og hvíldarstöðva hraðbrautanna, sem vinna að því að þétta net rafhleðslustöðva, opnað níu nýjar hleðslustöðvar meðfram hraðbrautunum A1 og A2 milli Hamborgar og Kölnar. Og ekki nóg með það, rafmagnið er ókeypis, hvort heldur það eru þjóðverjar eða annarra þjóða ökumenn sem eiga í hlut. Straumurinn verður ókeypis til ársloka 2012 á nýju stöðvunum sem og öðrum hraðhleðslustöðvum sem ADAC hefur sett upp.

Peter Meyer forseti ADAC er mikill áhugamaður um rafbíla og rafbílanotkun og yfirleitt um nýja orkugjafa fyrir bifreiðar og samgöngur. Hann segir fjölda rannsókna ADAC og annarra sýna að fólk muni eðlilega seint sætta sig við orkugjafa sem takmarki ferðafrelsi þess verulega. „Með þessum 9 nýju stöðvum og þeim 39 stöðvum sem við áður höfum sett upp víðsvegar um Þýskaland höfum við leitast við að gera daglegt líf og umsvif rafbílaökumanna verulega auðveldara,“ segir Meyer.