Rafhleðslustöðvum fjölgar jafnt og þétt

Áframhaldandi uppbygging á innviðum til þess að mæta aukinni þörf rafhleðslu heldur áfram. Nú er svo komið að á hringveginum má finna fjölda stöðva frá ýmsum aðilum. Orka Náttúrunnar og Ísorka eru með flestar stöðvar hringinn í kringum landið. Þetta er þess sem meðal annars kemur fram í Árbók bílgreina 2020.

Í þann hóp hafa bæst bændur sem taka þátt í átakinu Hleðsla í hlaði sem og fjölmörg fyrirtæki og stofnanir sem farin að bjóða upp á hleðslustöðvar fyrir starfsmenn og viðskiptavini.

Í lok árs 2018 voru samtals 100 hraðhleðslustöðvar komnar í gagnið, undir merkjum Orku Náttúrunnar og Hleðslu í hlaði. Aukning á nýjum hleðslustöðvum áðurnefndra aðila var 40% á milli ára og voru 140 hleðslustöðvar í rekstri við lok árs 2019.

Samkvæmt vefsíðunni PlugShare, má finna allt að 186 rafhleðslustöðvar á Íslandi sem opnar eru almenningi. Ekki er þó fullvíst með afköst og hraða þeirra stöðva sem þar eru tíundaðar. Þá geta slíkar stöðvar verið háðar opnunartíma eða kaupum annarra afurða þeirra fyrirtækja sem halda úti þjónustunni. Hvað sem því líður hafa innviðir fyrir þá sem vilja aka um landið á rafbílum stórbatnað undanfarin misseri.

Fjöldi ferðamanna sem hefur heimsótt Ísland síðastliðin ár, átti stóran þátt í mikilli aukningu umferðar hér á landi. Frá árinu 2005 til 2019 jókst umferð um alls 60,4% um hringveginn samkvæmt vísitölu umferðar á 16 lykilteljurum Vegagerðarinnar. Árið 2019 var umferð rúmlega helmingi meiri en árin 2012 og 2013. Á árinu 2019 jókst umferð um 2,4% milli ára, þrátt fyrir fækkun erlendra ferðamanna.