Rafhlöðudrottning heimsins heiðruð

Dr. Christina Lampe-Önnerud.
Dr. Christina Lampe-Önnerud.

Evrópsk systurfélög FÍB, þeirra á meðal þau norrænu, heiðruðu nýlega sænsku vísindakonuna dr. Christina Lampe-Önnerud fyrir frábæran árangur hennar við að þróa öflugri, sterkari, endingarbetri og jafnframt mun ódýrari rafhlöður fyrir rafbíla, rafknúin farartæki og vinnuvélar en áður hafa þekkst. Uppgötvanir hennar sem eru margar á sviði líþíum-jónarafhlaða eru margar og hafa skilað sér ein af annarri í nýjustu rafbílana sem nú eru orðnir eru langdrægari og með styttri hleðslutíma en áður hefur þekkst.

Christina Lampe-Önnerud er einn fremsti sérfræðingur heims í þeim fræðum og vísindum sem lúta að líþíumrafgeymum. Hún rekur nú rannsókna- og tæknifyrirtækið Cadenza Innovation i Connecticut í Bandaríkjunum. Þrátt fyrir að hún sé einungis rétt fimmtug hefur hún starfað víða og á stóran þátt í þeirri hraðfara þróun líþíum rafgeyma sem hefur átt sér stað frá upphafi aldarinnar og til þessa dags.

Nýjustu líþíum-jóna-rafgeymarnir sem fyrirtæki hennar hefur hannað munu á næstu mánuðum og árum skila neytendum enn langdrægari og hagkvæmari rafbílum, með geymum sem eru orku-og afkastamestu en jafnframt þeir léttustu og öruggustu hingað til. En um leið eru þessir nýju geymar ódýrari í framleiðslu en áður hefur þekkst.

Það er því ekki síst henni og samstarfsfólki hennar að þakka að samkeppnisstaða rafbíla við hefðbundna brunahreyfilsbíla styrkist stöðugt og skilar neytendum sífellt  langdrægari og fljóthlaðnari rafbílum með endingarbetri geymum sem þola margfalt fleiri hleðslur og afhleðslur án þess að afköstin rýrni.