Rafknúnum bílum fjölgar ört

Þrátt fyrir að olíuverð sé mun lægra en var mörg undangengin ár, hefur það ekkert hægt á þróun rafmagns-knýbúnaðar í bíla.. Nýir, bæði hreinir rafbílar og bílar með rafmagns- og bensín/dísilvélum eru nú fleiri en nokkru sinni áður í sögu bílsins og fjölgar stöðugt.

Þýski íhlutaframleiðandinn Bosch telur að minnst 15 prósent allra nýrra bíla verði ýmist tvíorkubílar (tvinnbílar) árið 2025 eða hreinir rafbílar. Bosch spáir því að allar rafhlöður í rafbíla verði orðnar minnst helmingi afkastameiri árið 2020 en þær bestu eru nú. En jafnframt verði rafhlöðurnar þá orðnar helmingi ódýrari.

Evrópusambandið hefur ákveðið mjög strangar reglur um CO2 útblástur frá bílum. Samkvæmt þeim skulu markmiðin nást fyrir árið 2021. Bosch telur að markmiðin leiði til þess að tvíorku-driflínur verði fyrir 2021 orðnar staðalbúnaður í öllum jeppum og jepplingum. En jafnframt því verði búið að endurbæta mikið bæði bensín og dísilvélar og draga verulega úr CO2 útblæstri þeirra umfram það sem þegar hefur verið gert.

-Rafmagnsvæðing bílanna mun breyta miklu og lyfta brunahreyflunum í nýjar hæðir, segir Dr. Volkmar Denner aðstoðarforstjóri Robert Bosch GmbH í Þýskalandi. Hann segir að rafmagnið muni leiða til þess að brunahreyflarnir eyði miklu minna eldsneyti og bruni þeirra verði miklu hreinni. Þá muni rafmótorarnir bæta verulega viðbragð bílanna og gera þá skemmtilegri í akstri. Ennfremur muni hríðlækkandi verð rafgeyma gera raf- og tvinnbílana ódýrari. Hingað til hafa líþíum-rafgeymar í raf- og tvinnbíla verið mjög dýrir. Sem dæmi um það má nefna að rafgeymarnir í bíl eins og Nissan Leaf kostuðu lengi rúmlega jafn mikið og sjálfur bíllinn með öllum búnaði, en án geymanna.

Denner telur að mikilvægi lítilla rafknúinna farartækja í samgöngum, ekki síst í þéttbýli, eigi eftir að aukast. Það hafi reyndar þegar sýnt sig í Kína þar sem nú þegar eru í umferð yfir 120 milljón rafhjól og rafskellinöðrur sem komast á 40 km hraða á klst. Rafmótorinn í flestum þessara hjóla er einmitt frá Bosch. Hann segir að þessi rafhjól uppfylli hreyfanleikaþarfir mjög margra  Kínverja, ekki síst í stórborgunum og næsta verkefnið sé að búa til sambærilegar klæðskerasaumaðar bíllausnir fyrir fólkið í borgum Vesturlanda.