Rafmagnsbíll í framleiðslu í Finnlandi

http://www.fib.is/myndir/Fisker_Karma_logo_1024x768_1.jpg

Valmet í Finnlandi sem m.a. framleiðir landbúnaðartraktora og byggði á árum áður Saab og byggir sportbíla fyrir Porsche, hefur undirritað viljayfirlýsingu við nýjan bandarískan bílaframleiðanda; Fisker, um að byggja tengiltvinnbílinn Fisker Karma. Árleg framleiðsla er áætluð 15 þúsund bílar. Framleiðslan hefst síðla á næsta ári.

Fisker fyrirtækið ber nafn eigandans og stofnandans, Henriks Fisker. Henrik er Dani, fæddur árið 1963. Hann var áður aðalhönnuður BMW og hannaði þar m.a. BMW Z 8 sportbílinn. Þá er hann höfundur þeirra tveggja Aston Martin sportbíla sem þykja einna flottastir sportbíla í dag. Það eru Aston Martin DB9 og Aston Martin V8 Vantage.http://www.fib.is/myndir/Fisker_Karma_profile.jpg

Fisker stofnaði Fisker Coachbuild í S. Kaliforníu í Bandaríkjunum og hefur hannað hinn sportlega „fjölskyldubíl“ Fisker Karma. Þetta er tengiltvinnbíll. Aðalvélin í honum er öflugur rafmótor knúinn líþíum-jónarafhlöðum. Hann er sagður komast 80 kílómetra á straumnum í geymunum, en þegar rafmagnið tekur að þverra fer ljósamótor í gang og hleður inn á geymana. Sé bíllinn eingöngu notaður í borgarumferð nægir í flestum tilfellum að stinga bílnum í samband á kvöldin þegar heim er komið, þannig að í þeim aðstæðum fer ljósamótorinn sjálfsagt sjaldan eða aldrei í gang.

Sá framleiðslusamningur sem nú er að fæðast milli Valmet og Fisker kemur sér vel fyrir finnska fyrirtækið því að Porsche hyggst ekki endurnýja framleiðslusamning sinn við Valmet en hann rennur út 2011.The image “http://www.fib.is/myndir/Fisker_Karma_34rear.jpg” cannot be displayed, because it contains errors.

Valmet hefur byggt Porsche Boxter og Cayman undanfarin 10 ár og samkvæmt gæðakönnunum JD Power eru Boxter og Cayman frá Finnlandi í hæsta gæðaflokki og betri en sömu tegundir byggðar annarsstaðar. Engu að síður ætlar Porsche að flytja framleiðsluna frá Finnlandi til Magna-Steyr í Austurríki.  

Fyrstu eintökin af Fisker Karma bílunum verða flutt til Bandaríkjanna. Það verður ekki fyrr en upp úr miðju ári 2010 sem Evrópubúum gefst kostur á að eignast Fisker Karma. Áætluð ársframeliðsla verður sem fyrr segir 15 þúsund bílar. Til samanburðar þá er ársframleiðslan af Porsche hjá Valmet 24 þúsund bílar.  

Fisker Karma er fjögurra sæta bíll. Hann er sex sekúndur að ná í hundraðið úr kyrrstöðu. Rafmótorinn gefur fulla vinnslu um leið og hann byrjar að snúast og vinnslan er nánast sú sama allt þar til hámarkshraða er náð sem er 200 km á klst. Togkúrfan er því nánast alveg flöt.

Um tvennkonar akstursmáta má velja; annarsvegar Stealth Drive, sem er hagkvæmur akstursmáti með minni orkuþörf. Hinn mátinn nefnist Sport Drive og í honum er fullt afl aðgengilegt. Þegar stigið er á hemlana breytist hemlunarorkan, eða hluti hennar aftur í rafmagn sem hleðst inn á geymana.