Rafmagnsbíll setur heimsmet

Nýtt met sem á áreiðanlega eftir að komast í heimsmetabók Guinness, hefur verið sett. Japanskur rafbíll komst hvorki meira né minna en 1.003 kílómetra á einungis einni rafhleðslu. Taka verður fram að ekki var um venjulegar hversdagslegar akstursaðstæður.

Sjálfur bíllinn sem metið var sett á er Daihatsu Mira, bókstaflega troðfullur af líþíumrafhlöðum frá Sanyo Electric með um það bil 50 kílówattstundir af rafmagni. Rafhlöðurnar voru í laginu sem sívalningar, alls 8.320 talsins. Útgangsspennan var 240,5 volt.

 Metið var sett þannig að bílnum var ekið dagana 22. og 23. maí á Tsukuba keppnisbrautinni nokkurnveginn stanslaust þar til bíllinn stöðvaðist. Meðalhraðinn var 40 km á klst. Þegar bíllinn loks stöðvaðist hafði hann lagt að baki 1.003,184 kílómetra á einni og sömu hleðslunni

 Það var Rafbílaklúbbur Japans sem stóð að þessum atburði og 17 ökumenn óku bílnum hver eftir öðrum og alls tók umstangið 27 og hálfa klukkustund. Samskonar tilraun var gerð af sömu aðilum í nóvember í fyrra á sama bílnum og með sama fjölda rafgeyma. Tilraunin þá vavr þó ólík að því leyti að ekið var í venjulegri umferð frá Tokyo til Osakaborgar. Þá tókst að aka bílnum alls 555 kílómetra þannig að árangurinn nú er auðvitað betri í kílómetrum talið. Segja má þó að árangurinn í fyrra hafi verið nær raunveruleikanum. Árangurinn í fyrra reyndist vera heimsmet og er sem slíkt skráð í heimsmetabók Guinness.

 Bíllinn var semsé hinn sami nú og setti 555 kílómetra metið í fyrra en búið að létta hann um fáein kíló, m.a. með því að taka upprunalegu sætin úr honum og setja í þeirra stað mjög létt sæti úr koltrefjaefni og setja undir hann mjög mótstöðulitla hjólbarða frá Toyo.

Þótt akstursskilyrðin nú séu ekki  alveg í takti við raunveruleikann þá er árangurinn engu að síður afar áhugaverður. Hafa skal þó í huga að líþíumrafhlöður sem geta geymt 50 kílówattstundir af rafmagni bæði talsvert fyrirferðarmiklar og þungar í smábíl eins og Daihatsu Mira og auk þess svo dýrar að bíllinn myndi kosta miklu meira en nokkur maður er tilbúinn að greiða fyrir venjulegan fjölskyldubíl, hvað þá lítinn fjölskyldubíl.

Sanyo Electric segir á heimasíðu sinni að stöðugt sé unnið að því að auka geymslurýmd rafhlaðanna í hlutfalli við þyngd þeirra. Jafnframt sé linnulaust leitað leiða til að lækka framleiðslukostnaðinn og þar með verðið á rafhlöðunum.