Rafmagnsreiðhjól frá Matra í Frakklandi

http://www.fib.is/myndir/Rafmagnshjol.jpg
Franska tæknifyrirtækið Matra sem lengi hefur sérhæft sig í breytingum á bílum og takmarkaðri sérframleiðslu á þeim hefur nú búið til rafknúið reiðhjól – einskonar tvíorkuhjól sem knúið er bæði af hjólreiðamanninum sjálfum og rafmagnshjálparvél. Hjólið nefnist Matra MS1.

Hjólið er það öflugt að rafmótorinn getur komið því á 100 km hraða, en rafeindabúnaður er í því sem takmarkar hraðann þannig að hann er innan skynsamlegra marka svona yfirleitt. Hjólið vinnur svipað og Toyota Prius að því leyti að þegar hemlað er breytist hemlunarorkan í rafmagn sem skilar sér aftur inn á geyminn. Á stýrinu er lítill skjár sem sýnir hraðann og hversu mikill straumur er á rafgeyminum hverju sinni.

Þetta merkilega farartæki hefur verið sýnt á bíla- og mótorhjólasýningum að undanförnu, nú síðast á bílasýningunni í Tokyo í Japan.