Rafmagnssportbíll frá Mitsubishi

http://www.fib.is/myndir/Mitsub-i%20miev%20sport.jpg

Mitsubishi iMiEV Sport Aero.
 
Eins og fram hefur komið í fréttum verður Ísland meðal fyrstu markaða í heiminum til að  fá iMiEV rafmagnsbílinn frá Mitsubishi Motors á göturnar. Samningur þess efnis var undirritaður af HEKLU, Mitsubishi Motors, Iðnaðarráðuneytinu, Orkustofnun og fleiri aðilum í september á síðasta ári.

iMiEV var sýndur hér á landi sl. haust í tengslum við alþjóðaráðstefnu um sjálfbærar samgöngur. Tíðindamanni FÍB gafst þá tækifæri til að taka í hann og er skemmst frá að segja að hann var ágætur í akstri og  skar sig í fáu úr hópi venjulegra góðra sjálfskiptra smábíla að öðru leyti en því að vera mjög hljóðlátur.http://www.fib.is/myndir/Mitsub.i%20miev%20sport2.jpg http://www.fib.is/myndir/Mitsub.Miev.jpg

Nú hefur Mitsubishi Motors gefið það út að á bílasýninguni í Genf verði frumkynnt sportútgáfa af þessum sama iMiEV og að sjálfsögðu er hún líka hreinn rafbíll. Búast má við að í útliti verði þessi sportútgáfa nokkuð ólík hinum hefðbundna iMiEV því að hann verður með opnanlegum toppi. Engar myndir hafa birst enn af þessum umhverfismilda rafknúna sportbíl. Teikningarnar sem hér birtast eru einu vísbendingarnar um útlitið, sem er talsvert ólíkt hinum hefðbundna og vafalaust nokkuð frá hinu endanlega útliti.

Ekki er heldur enn ljóst hvort afl og drægi sportútgáfunnar verði hið sama og í hinum hefðbundna iMiEV eða annað og meira. Í fyrrnefndum kynningarakstri sl. haust kom í ljós að iMiEV var í engu afls vant. En fyrst um er að ræða sportbíl hefur trúlega verið eitthvað bætt í hestöflin. Í það minnsta segir í frétt frá Heklu, umboðsaðila Mitsubishi, að sportútgáfan verði fljót á sér að ná hraða úr kyrrstöðu enda sé sportbíllinn hreinræktaður umhverfismmildur hraðakstursbíll – nýaldarbíll með eiginleika hins hraðskreiða sportbíls.