Rafmagnsstrætó komst 325 km

Frá því í byrjun janúarmánaðar hafa tveir kínverskir strætisvagnar af tegundinni BYD verið í fullri notkun innan leiðakerfis strætisvagna Stór-Kaupmannahafnar. Reynslan af þeim er samkvæmt frétt FDM góð og það virðast engin sérstök vandamál fylgja þeim og þeir sagðir komast auðveldlega í gegn um vinnudaginn á einni og sömu rafhleðslunni. Drægið er nefnilega vel rúmlega sú vegalengd sem þurfa að leggja að baki yfir daginn.

Vagnarnir eru báðir af fullri stærð sem þýðir að þeir eru 12 metra langir. Í síðustu viku var öðrum rafvagninum ekið daglega á leið 12. Lengd ökuhringsins á þeirri leið er 92 kílómetrar, stansað var á öllum stoppistöðvum og hleypt út farþegum og nýjum hleypt inn í vagninn eins og vera ber og var meðal farþegafjöldi 40. Í lok sl. vinnuviku var vagninn sendur út á hraðbraut og ekið þar uns mælar sýndu að átta prósenta hleðsla væri eftir á geymunum. Þá stóð kílómetrateljarinn í 325 eknum kílómetrum. Fulltrúi framleiðanda vagnanna telur að það sé trúlegast heimsmet í drægi rafknúins strætisvagns.

Árangur hins rafmagnsvagnsins er ekki síður ágætur. Daglegur vinnuhringur hans er 150 kílómetrar og hefst vinnan kl. sex á morgnana og lýkur kl. 15.50. Þegar honum lauk í lok sl. viku var bílnum, eins og þeim fyrri, ekið út á hraðbraut og hann stöðvaður þegar mælar sögðu að átta prósent hleðsla væri á rafgeymunum. Þá hafði vagninum verið ekið 240 kílómetra allan daginn með kveikt á miðstöð og ljósum og fullum af farþegum.