Rafmagnstryllitæki

http://www.fib.is/myndir/Tesla_roadster.jpg
Tesla Roadster - hreinn rafbíll.

-Það mætti ætla að þeir sem hingað til hafa byggt rafbíla sé í nöp við bíla yfirleitt og vilji refsa fólki með því að hafa bílana eins gagnslitla og leiðinlega og frekast er unnt – sagði Martin Eberhart forstjóri bandaríska bílaframleiðandans Tesla í Kaliforníu í viðtali við danska sjónvarpið nýlega.

Martin Eberhart getur trútt um talað því hann og fyrirtæki hans, Tesla Motors byggir sportbíl sem byggður er á hinum breska sportbíl Lotus nema að vélin er 248 ha. rafmótor. Líþíum-jóna-rafgeymar bílsins eru um 500 kíló að þyngd og kemst bíllinn 375 km á hleðslunni. Bíllinn er tæpar fimm sekúndur úr kyrrstöðu í hundraðið og hámarkshraðinn er tæplega 220 km á klst. The image “http://www.fib.is/myndir/Tesla1.jpg” cannot be displayed, because it contains errors.

Tesla sportbíllinn er ekki fjöldaframleiðslubíll í hefðbundnum skilning, heldur eru bílarnir að mestu smíðaðir upp í pantanir eins og títt er um ýmsa bíla í dýrari kantinum. Þegar er búið að framleiða fyrstu framleiðsluséríuna og var hún öll uppseld fyrirfram. Framleiðsla er að hefjast á annarri framleiðsluseríu og mikill fjöldi pantana liggur þegar fyrir. Á meðal þeirra sem um þessar mundir eru að fá fyrstu Tesla bílana afhenta eru Arnold Schwarzenegger ríkisstjóri í Kaliforníu og George Clooney leikari. Undirvagn og yfirbygging er frá Lotus. Verðið er frá 100 þúsund dollarar stykkið.

Danska sjónvarpið hafði viðtal við Eberhart í tilefni af því að Tesla rafbíllinn hafði verið útnefndur til evrópskra nýsköpunarverðlauna og var sýndur í Kaupmannahöfn ásamt öðrum hlutum sem tilnefndir voru. Hann sagði í viðtalinu að markmiðið hefði frá upphafi verið það að byggja rafbíl sem væri fallegur, skemmtilegur í akstri, öruggur, hraðskreiður og með sambærilegt notagildi og aðrir samskonar bílar með hefðbundnum vélum.
http://www.fib.is/myndir/Tesla_roadster2.jpg
Hann sagði að um þriðjungur alls CO2-útblásturs af mannavöldum komi frá samgöngum. „En hvernig er hægt að sannfæra neytendur um að skipta yfir í umhverfismildari rafbíla sem eru þannig að ætla mætti að þeir séu hannaðir og byggðir af fólki sem hatar bíla?“ sagði Eberhart. Hann sagði ennfremur að venjan væri um nýjar kynslóðir bíla, að þeim sé ætlað að höfða til millistéttanna þar sem kaupendahópurinn sé langstærstur. Hugmyndin með Tesla bílnum væri hins vegar sú að höfða hvorki milli- eða lágtekjuhópa, heldur til auðugra kaupenda dýrra lúxusbila og sportbíla – í og með til að losa um golfbílaímynd rafbílanna. Þannig sé Tesla Roadster ætlað að verða – í fyrstunni í það minnsta - stöðutákn hátekjufólks. Síðan muni tæknin í bílnum breiðast út til farartækja í ódýrari enda bílamarkaðarins.

Þetta sé nákvæmlega eins og með ýmsa aðra hluti sem nú eru í eigu allra, hárra sem lágra. Í fyrstunni voru slíkir hlutir (bílar, ísskápar o.fl.) eingöngu á færri auðugs fólks að eignast. Að byrja að byggja rafbíla fyrir lægri enda markaðarins sé einfaldlega hugmynd sem ekki geti gengið upp. Þegar svo hönnunar og byrjunarkostnaðinum við tæknina í Tesla sportbílnum tekur að jafnast út sé ætlunin að koma fram með ódýrari stallbaksútgáfu Tesla árið 2010 og dreifa þannig umhverfismildinni næst til millitekjufólksins.

Tesla Roadster er eingöngu rafbíll (engin tvinntækni) og því gefur hann ekki frá sér neitt af CO2. Hann kemst sem fyrr segir amk. 375 km á rafhleðslunni og orkunotkun hans jafngildir bensíneyðslu upp á 1,8 l á hundraðið. Það tekur fjórar klst. að fullhlaða tómar rafhlöður bílsins. Það mun vitanlega koma fram á rafmagnsreikningnum en sé miðað við algengt verð á raforku í Kaliforníu þá er eldsneytiskostnaðurinn um eitt sent á míluna.