Rafrænn „keppnisstjóri“ í Chevrolet Corvette

Síðar á þessu ári verður fáanleg sem aukabúnaður mjög öflug aksturstölva í Chevrolet Corvette sporbílnum sem er samskonar og sú sem er í sérbyggðum keppnisbílum Chevrolet. Tölvan fylgist með akstrinum og öllum hreyfingum bílsins og skráir hjá sér hraða, vegalengdir, tíma og  flest annað það sem máli skiptir. Hvort ekill er akandi í keppni eða í hefðbundnum akstri getur hann strax kallað fram upplýsingar um hvernig hann ók, hversu hratt hann tók þessa eða hina beygjuna og síðan bætt úr hugsanlegum ágöllum. 

Bíll með þessum tölvubúnaði var sýndur á rafeindatæknisýningu í Las Vegas nýlega og yfirverkfræðingurinn hjá Corvette-deild Chevrolet sagði að brátt geti venjulegt akstursáhugafólk skoðað ökuferla sína og bætt sig síðan með því að rýna í upplýsingarnar úr aksturstölvunni, annaðhvort í bílnum sjálfum eða tappað gögnunum af tölvunni inn á venjulega fartölvu og skoðað síðan í góðu tómi heima.

Aksturstölvan og búnaður hennar eru auk tölvunnar sjálfrar. m.a. myndavélar, GPS staðsetningarbúnaður, hljóðnemi og mælar. Mælarnir mæla alla krafta sem á bílinn verka í akstri, t.d. í hröðun, hemlun og beygjum og hljóðneminn tekur upp athugasemdir ökumannsins í akstrinum. Búnaðurinn kallast  PDR (The Corvette Performance Data Recorder). Hann er að öllu leyti sniðinn eftir búnaði í bílum keppnisliða Corvette og hinna bresku Cosworth keppnisbíla.

Tölvukerfið getur safnað saman og unnið úr mjög miklum upplýsingum um aksturinn, eins og þeim hver hraðinn er hverju sinni, hversu vélin snýst hratt og í hvaða gír bíllinn er, hver stefnan er og hversu krappar beygjurnar eru. Hægt er að velja um ferns konar stillingar. Sú fyrsta og öflugasta nefnist Track Mode og er fyrst og fremst miðuð við þarfir keppnisfólks. Sú næsta kallast Sport Mode og fer ekki alveg jafn ítarlega í hlutina eins og keppnisstillingin. Þá kemur Touring Mode sem vinnur ekki úr neinum upplýsingum heldur sýnir einungis á skjá veginn framundan og nágrenni vegarins, hraða o.s.frv. Loks er svonefndur Performance Mode sem mælir viðbragðstíma (t.d. 0-100 km hraða) og millihröðun  (t.d. 50-90) o.fl.

Corvette PDR búnaðurinn verður fáanlegur sem aukabúnaður í nýjum Corvette bílum í Bandaríkjunum frá og með næsta sumri. Hann verður í boði í bæði núverandi Corvette Stingray og einnig í nýju kynslóðinni sem nefnist Corvette Z06.