Rafvæðingin fyrr á ferðinni að mati Toyota

Japanski bílaframleiðandinn Toyota er mun bjartsýnni á sölu rafmagnsbíla en upphaflegar spár fyrirtækisins gerðu ráð fyrir. Á ráðstefnu sem stendur yfir í Peking í Kína þessa dagana kom fram að Toyota gerir ráð fyrir að heildarsala rafmagnsbíla frá fyrirtækinu á heimsvísu verði 5,5 milljónir bíla fyrir árið 2025.

Í fyrri áætlunum var Toyota búið að spá því að ná þessum fjölda fyrir 2030. Árið 2017 gaf Toyota það út að selja 4,5 milljónir tvinn- og tengiltvinnbíla og eina milljón hreinna rafbíla fyrir árið 2030.

Seiya Nakao, einn af yfirmönnum Toyota, sagði á ráðstefnunni í Peking að rafvæðing faratækja gengi mun hraðar en búist hafði verið við. Toyota, sem er langstærsti japanski bílaframleiðandinn, telur sig geta náð markmiðunum fyrr.

Toyota seldi meira en tíu milljónir ökutækja á heimsvísu á síðasta ári, þar af tvær milljónir tvinn- og tengiltvinnbíla.