Rándýr rafbíll

Undir lok ársins er von á tveimur eintökum af rafbílnum Mitsubishi i MiEV til Íslands.  Hann var reryndar sýndur hér á landi í tengslum við ráðstefnuna Driving Sustainability og þá gafst fréttavef FÍB færi á að aka honum stuttan hring um Reykjavík í roki og rigningu. Bíllinn er um þessar mundir að koma á almennan markað í heimalandinu Japan og er aldeilis rándýr – kostar svipað þar og tveir Toyota Prius.

 MiEV stendur fyrir Mitsubishi Innovative Electric Vehicle. Hann er fjögurra manna smábíll sem komast á 160 km á hleðslunni og er í akstri að flestu leyti eins og hefðbundinn sjálfskiptur bíll. Sjálfur bíllinn er búinn að vera á heimamarkaðinum í Japan um nokkurra ára bil sem bensínbíll undir nafninu Mitsubishi i, en er nú að koma á heimsmarkað sem einn af fyrstu fjöldaframleiddu rafbílunum. Bílarnir sem hingað koma næsta vetur eru einskonar tilraunabílar eða undanfarar áður en bíllinn kemur í almenna sölu. Til Svíþjóðar eru nú komin 12 eintök sem eru í kynningarskyni sendir milli Evrópulanda og eru einskonar undanfarar almennrar sölu á bílnum sem á að hefjast næsta haust.

http://www.fib.is/myndir/Mitsubishi_i-miev.jpg
 

 MiEV er með rafmótorinn afturí og drifið er á afturhjólunum. Rafhlöðurnar eru 88 líþíumrafhlöður sem staðsettar eru í milligólfi bílsins þar sem bensíntankurinn er á bensíngerðinni. Rafhlöðurnar eru einungis 200 kíló og sjálfur mótorinn 45 kíló og nánast viðhaldsfrír. Uppgefið hámarksdrægi bílsins er 160 kílómetrar sem áður er sagt, en þegar ljós, miðstöð og hljómtæki eru notuð út í æsar er mælt með því að hlaða geymana á 100 km fresti. Þessutan má í köldu loftslagi norðurslóða reikna með minni virkni geymanna á köldum vetrardögum en í sumarhlýindunum, svo fullir fyrirvarar séu hafði á. Hleðslutími tómra geyma úr venjulegri 10 ampera heimilisinnstungu er um 10 klst.

 Mitsubishi ábyrgist að geymarnir endist í 10 ár eða 150 þúsund km en hefur þann fyrirvara á að virkni geymanna geti á ábyrgðartímanum fallið um allt að 80 prósent. Og eins og verðið á líþíumgeymum er nú, er skemmst frá að segja að það er dýrt að endurnýja geymana, afar dýrt. Sem dæmi um það má nefna að Íslendingur sem breytt hefur kóreskum smábíl sínum í rafbíl keypti í hann líþíumgeyma frá Kína sem kostuðu á aðra milljón króna – fyrir hrun krónunnar. Í Mitsubishi bílnum má eiginlega segja að bíllinn sjálfur kosti sitt bílverð en rafhlöðurnar síðan annað bílverð.

 Í Japan er verðið á þessum smábíl svipað og tveir nýir Toyota Prius bílar kosta. Svipaða sögu er að segja af þeim bílum sem væntanlegir eru hingað til lands, þrátt fyrir það að þeir verði undanþegnir innflutningsgjöldum (vörugjöldum) vegna þess að þeir ganga fyrir innlendri orku. En Mitsubishi gefur þá skýringu á þessu háa verði að það sé vegna þess hve fáir bílar hafi verið byggðir. Með vaxandi fjöldaframleiðslu muni verðið lækka.

 Hámarksafl rafmótorsins er  64 hö. Það hljómar að sönnu ekki neitt sérstakt í bíl sem er 1080 kg að þyngd. En sagan er þó varla hálfsögð því að rafmótorinn hefur fullt togafl (180 Nm) frá því augnabliki að hann byrjar að snúast. Í akstri er bíllinn því ágætlega sprækur. Þótt bíllinn sé fremur hábyggður situr þyngdarpunkturinn lágt vegna geymanna inni í milligólfinu. Aksturseiginleikarnir eru svo bara nokkuð skemmtilegir vegna drifsins á afturhjólum og þyngdardreifingarinnar sem er þannig að 44 prósent hvíla á framhjólunum en 56 prósent á afturhjólum. Og þegar svo farið er út á þjóðvegina fylgir bíllinn alveg umferðinni þar sem hámarkshraði hans er 130 km á klst.