Rangt eldsneyti á bílinn

http://www.fib.is/myndir/Stop-bensin.jpg
Bensíndælingarvörn fyrir dísilbíla.

Dísilknúnum fólksbílum hefur fjölgað umtalsvert undanfarin ár hér á landi. Að sama skapi hefur fjölgað þeim tilvikum þegar óvart er dælt bensíni á eldsneytistankinn úti á bensínstöð og það er dýrt spaug.

 Lang oftast gerir fólk þau mistök að dæla bensíni á dísilbílinn. Það gerist mun sjaldnar að dælt sé dísilolíu á bensínbíla. Það er einfaldlega vegna þess að áfyllingarop bensínbílanna eru þrengri en dísilbílanna þannig að áfyllingarstúturinn á dísilolíudælunni, sem er sverari, kemst ekki ofan í þau.

Þann 25. nóvember 2008 birtist þessi frétt hér á vefnum. Hún er enn í fullu gildi að öðru leyti en því að allar kostnaðartölur hafa hækkað þannig að það er enn verra en áður að gera þessi mistök. En í ljósi þess hversu algeng þau eru og kostnaðarsöm, ekki bara hér á landi heldur líka í öðrum löndum og álfum þar sem dísilbílar eru mjög margir, þá er í raun furðulegt að einungis tveir bílaframleiðendur Evrópu geri dísilbíla sína þannig úr garði að mjög erfitt eða ómögulegt sé að dæla á þá bensíni í stað dísilolíu. Þessir framleiðendur eru Ford og Jaguar.

En sem betur fer er til búnaður sem hægt er að kaupa í mörgum bílabúðum en líka á Netinu, t.d. hér. Þessi búnaður kostar um 30 pund eða 6 rúmlega þúsund krónur hingað kominn. Þótt einhverjum finnist kannski sex þúsund kall vera nokkuð mikið í lagt fyrir lítinn plasthólk þá er það þó smámunir miðað við það sem kostar að hreinsa úr tanknum og eldsneytiskerfinu, skipta um síur og lagfæra hugsanlegar skemmdir á eldsneytiskerfinu og olíuverkinu, sem geta orðið gríðarlega kostnaðarsamar ef allt fer á versta veg.