Rannsókn Procar-málsins að ljúka

Procar er greinilega enn starfandi. Þessi mynd náðist í Leifsstöð nýlega af starfsmanni bílaleigunna…
Procar er greinilega enn starfandi. Þessi mynd náðist í Leifsstöð nýlega af starfsmanni bílaleigunnar að bíða eftir viðskiptavini. Þegar upp komst um svikastarfsemi Procar á sínum tíma, heyktist Samgöngustofa á því að svipta hana starfsleyfi.

Rannsókn Héraðssaksóknara á Procar-málinu er á lokastigi. Það er saksóknari hjá embætti Héraðssaksóknara sem fær málið til afgreiðslu.

    Procar málið snýst í stuttu máli um það að snemma á árinu 2019 viðurkenndu forsvarsmenn bílaleigunnar Procar að hafa skrúfað kerfisbundið niður kílómetrateljara í bílum sínum þegar þeir voru settir í sölu. Það gerðu þeir í kjölfar útsendingar á fréttaskýringaþættinum Kveik þar sem fjallað var um þetta svikamál sem var mjög umfangsmikið. Þar kom í ljós að mikill fjöldi fólks hafði orðið fyrir barðinu á svikunum og þau staðið yfir árum saman.

    Embætti Héraðssaksóknara fékk málið inn á sín borð í byrjun sumars 2020. FÍB fréttir spurðust fyrir um það í dag (20. sept 2021) hvar málið væri statt og fékk þau svör að það væri á lokastigi hjá embættinu. Rannsóknin, sem hafi verið mjög umfangsmikil sé nú að mestu lokið og frágangur allur á lokastigi. Verið væri að búa það í hendur saksóknara hjá embætti Héraðssaksóknara.

    Samtök ferðaþjónustunnar vísuðu Procar úr samtökunum eftir umfjöllun Kveiks og bæði lögregla og Samgöngustofa hófu rannsókn á málinu. Hlutur Samgöngustofu í rannsókninni varð ekki langur þar sem Samgöngustofa taldi sig fljótlega ekki geta svipt bílaleiguna starfsleyfi vegna þess að valdheimildir hennar næðu einungis til  starfsemi ökutækjaleiga en ekki til endursölu ökutækja á markaði. 

    Héraðssaksóknari fékk málið til rannsóknar úr höndum lögreglu í lok maí 2019 vegna þess hve umfangsmikið það var. Upplýst var í Kveik að átt hefði verið kílómetrateljara í verulegum fjölda bíla og um langt árabil. Mismikið hafi verið undið ofan af kílómetrateljurum bílanna en í sumum þeirra um tugi þúsunda kílómetra.