Refsiskatt á eyðslufreka bíla

-Umhverfismildu bílarnir verða að stórlækka í verði og allir þeir sem velja að fá sér eyðslufreka bíla verða jafnframt að greiða refsiskatt, segir sænski vísindamaðurinn Mats Williander. Hann gagnrýnir ennfremur nýjar skilgreiningar sænskra stjórnvalda á því hvaða bílar teljast til umhverfismildra og hverjir ekki. Reglurnar séu svo ógagnsæjar að þær leiði til þess að fólk í vaxandi mæli hættir að velja nýja bíla eftir eyðslu og kaupi  bíla sem ekki eru umhverfismildir.

Mats Williander er rannsóknastjóri við stofnun sem heitir Viktoria Swedish ICT. Stofnunin starfar með iðnaðinum að því að finna leiðir til að gera iðnaðinn og allt sem honum tengist sjálfbært.

Bílaiðnaðurinn hefur undanfarin ár og áratugi náð miklum árangri í því að gera bæði iðnaðinn sjálfan sem og framleiðsluvöruna – bílana  umhverfismildari. Samtímis hefur umhverfisvitund almennings styrkst og kaupendur nýrra bíla hafa í vaxandi mæli sóst eftir bílum sem brenna minnstu jarðefnaeldsneyti, að því gefnu að notagildi þeirra sé hið sama og eldri og eyðslufrekari.  Einfaldast er fyrir almenning að lesa út úr því hvort bíll sé umhverfismildur eða ekki, er að skoða vísitölur um eyðslu hans og tölur um CO2 útblástur á hvern ekinn kílómetra. Skilgreiningareglurnar á umhverfismildinni hafa lengstum verið í þessum anda en um sl. áramót var þeim breytt í Svíþjóð þannig að farið var að taka inn í þetta breytur eins og eyðslu og útblástur sem hlutfall af þyngd bílsins. Þar með getur allt í einu ofurbíll skilgreinst sem umhverfismildur með þessum nýju reikniaðferðum, enda þótt hann kannski eyði þetta 14-18 lítrum á hundraðið.

Þetta gagnrýnir Williander og sömuleiðis það hversu verð margra umhverfismildra bíla er hátt, samanborið við hefðbundna bíla með brunahreyfli. Með réttu ætti nýr rafbíll eins og Nissan Leaf ekki að kosta meir en nýr VW Golf. Mjög sé gagnrýnivert hversu margir umhverfismildu bílarnir eru dýrir, eins og t.d. tengiltvinnbílinn Volvo V60. Hann er 3,1 milljón ísl. kr dýrari í Svíþjóð en fjórhjóladrifinn  Volvo S60 T6 AWD. Þetta bara eitt dæmið um það hversu miklu dýrari svokallaðir ofur-umhverfismildu bílar eru (bílar sem gefa frá sér minna en 50 grömm CO2 á ekinn kílómetra) og langt ofan við kaupgetu venjulegra launþega.

Hann leggur því til að gefin verði stærri meðgjöf með hverjum keyptum umhverfismildum bíl og að þeir sem kaupa sér eyðslufreka bíla borgi þann kostnað sem af þessu hlytist.