Reglur um aukið eftirlit með öryggi vegamannvirkja taka gildi

Nýjar og skýrar reglur hafa verið settar um sjálfstætt eftirlit með öryggi vegamannvirkja. Þær tóku gildi í lok maí með breytingu á reglugerð nr. 866/2011 um öryggisstjórnun vegamannvirkja.

Markmiðið með reglunum er að efla enn frekar eftirlit með öryggi vegamannvirkja, m.a. við fjölbreyttar nýframkvæmdir og viðhald á vegum landsins. Breytingarnar fela í sér skýr ákvæði um sjálfstætt eftirlit Samgöngustofu með framkvæmd öryggisstjórnunar vegamannvirkja.

Einnig voru gerðar breytingar á reglugerðinni í tengslum við innleiðingu á tilskipun Evrópuþingsins um öryggisstjórnun vegagrunnvirkja.

Drög að reglunum voru settar í samráðsgátt stjórnvalda í apríl sl. og lauk samráði 6. maí.