Rekstur bíls verður dýrari á nýju ári

Senn gengur nýtt ár í garð með nýjum álögum á bifreiðaeigendur. Það verða einkum þeir sem eiga meðalstóra og stærri bíla sem verða fyrir barðinu á þessu. Þeir sem komist geta af með bíla af minnstu gerðunum sleppa skást.

Þær hækkanir sem um ræðir eru á vörugjaldi á eldsneyti og á skatti þeim sem nefnist kolefnisgjald sem í nafni umhverfisverndar leggst á eldsneytið. Samtals verða þetta kr. 3,50 á hvern lítra. Ofan í þessa skatta leggst svo virðisaukaskattur. Allt í allt þýða þessar hækkanur um áramótin það að bensínið fer að öllu óbreyttu í kr. 231,20 í sjálfsafgreiðslu. Það þýðir að reksturskostnaður fjölskyldubílsins hækkar um 6-10 þúsund krónur á ári miðað við 15 þúsund km akstur.

Nýju bílarnir hækka flestir

Í fyrra var vörugjöldum á nýja bíla breytt á þann hátt að vörugjöld skyldu lækka á minnstu og sparneytnustu bílana en hækka á þeim meðalstóru og stærri og því meir sem þeir eru öflugri og eyðslufrekari. Bílum var raðað í marga vörugjaldflokka eftir CO2 útblæstrinum og skyldu gjaldabreytingarnar taka gildi í áföngum en slá inn að fullu við upphaf ársins 2013.

Því miður er það svo að breytingarnar hafa hækkanir í för með sér á flesta þá bíla sem best henta mjög mörgum Íslendingum, en það eru ekki síst fjórhjóladrifnir fólksbílar af þeirri gerð sem í daglegu tali kallast jepplingar. Mjög vinsæll jepplingur um langt árabil er Toyota RAV4. Við verð hans eins og hann kostar kominn á hafnarbakka á Íslandi (cif verð) leggst frá og með áramótunum 41 prósent vörugjald sem var 36 prósent áður. Vörugjaldið mun svo hækka í 45% um áramótin 2012-13.  Toyota RAV4 er í svonefndum G-vörugjaldsflokki sem segja má að sé flokkur algengustu jepplinganna. Næsti gjaldflokkur fyrir ofan er flokkur H en þar er að finna vinsæla bíla eins og Toyota LandCruiser 150, BMW X3 og Jeep Cherokee sem allir fást með sparneytnum dísilvélum. Vörugjaldið á þá fer um áramótin úr 44 prósentum í 50 prósent. Um þarnæstu áramót fer svo vörugjaldprósentan í 55 prósent.

Aflmiklir lúxusjeppar og jepplingar eins og Audi Q7, Toyota LandCruiser, Range Rover, LandRover Discovery, Mercedes G og GLK flokkast í vörugjaldflokkana I og J eftir vélarstærðum og CO2 útblæstri. Vörugjaldprósentan í I flokki var á árinu  48%, fer nú í 54% og um þarnæstu áramót í 60%. Í flokki J var prósentan á þessu ári 52&, fer í 59% og um þarnæstu áramót í 65%.

Vörugjald á nýja bíla leggst á cif verð þeirra sem er verðið við verksmiðjudyr að viðbættum flutningskostnaði til landsins. Við það bætist svo álagning söluumboðs og ofan á allt saman leggst svo 25,5% virðisaukaskattur. Kaupendur nýrra bíla eru þannig að greiða virðisaukaskatt af skatti (vörugjaldinu).

Þær vörugjaldshækkanir sem verða um áramótin þýða það að jepplingar eins og Toyota RAV4, Honda CRV, Kia Sportage, Mitsubishi Outlander o.fl hækka í verði um ca 200-250 þúsund kr. Dýrari bílar eins og t.d. Toyota LandCruiser 150 hækka um ca. 500 þúsund krónur.