Renault bætir í skilagjaldið

Rafbílar seljast hvergi betur á byggðu bóli en í Noregi og salan vex stöðugt og samkeppnin harðnar. Renault býður nú kaupendum nýja rafbílsins Zoe tæplega 470 þúsund ísl. kr. afslátt (25 þús. NKR) gegn framvísun kvittunar fyrir því að búið sé að eyða gamla bílnum. 469.750 krónurnar frá Renault eru hrein viðbót við skilagjaldið sem í Noregi er 56.370,- ísl kr.

Það sem af er þessu ári hafa rúmlega 13.200 rafbílar verið nýskráðir í Noregi miðað við 3.870 á sama tíma í fyrra. Það jafngildir 240 prósenta aukning. Söluhæsti rafbíllinn er Nissan Leaf en Renault Zoe og aðrir Renault rafbílar hafa ekki verið fyrirferðarmiklir á norska markaðinum með 175 nýskráningar það sem af er árinu.

Hinn nýi Renault Zoe þykir ágætur í akstri og notkun. Hann er með nýjustu kynslóð rafgeyma sem sagðir eru mjög fljóthlaðnir. Renault Zoe kostar í Noregi 3,8 milljónir ísl. kr. kominn á götuna. Þegar hið opinbera skilagjald og aukaskilagjaldið frá Renault hafa verið dregin frá verðinu greiðir kaupandinn aðeins 3,27 millj. kr. fyrir bílinn.