Renault Clio er bíll ársins í Evrópu 2006

The image “http://www.fib.is/myndir/Billarsinsevropa.jpg” cannot be displayed, because it contains errors.
Bíll ársins í Evrópu 2006 - Renault Clio.
Fyrir stundu tilkynnti nefnd evrópskra bílablaðamanna að Renault Clio III hefði hlotið útnefninguna Bíll ársins í Evrópu 2006
Renault Clio var árið 1991 útnefndur bíll ársins og er útnefningin nú sú fyrsta í 43 ára sögu vals á bíl ársins í Evrópu sem bíll með sama gerðarheiti hlýtur þessa viðurkenningu oftar en einu sinni.
En það var vissulega mjótt á munum nú því að allir þeir sjö bílar sem í úrslit náðu hafa sér til ágætis nokkuð og einungis fimm stig skildu í milli efsta bíls og þess næstefsta, sem var Volkswagen Passat.
Það sem bílablaðamennirnir telja upp af kostum hins nýja Renault Clio er öryggi, árekstursþol, vandaður frágangur, þægindi og mikið rými. Nokkrir þeirra minnast í umsögnum sínum á að þessi bíll hljóti að verða leiðarljós í smíði stærri bíla ekki síður en bíla í flokki smábíla.
Frá því að val á bíl ársins í Evrópu hófst fyrir 43 árum hafa Renault bílar fimm sinnum hlotið þennan eftirsótta titil, síðast Renault Megane fyrir þremur árum. Úrslitin nú urðu sem hér segir:

1) Renault Clio III, 256 stig
2) Volkswagen Passat, 251 stig
3) Alfa Romeo 159, 212 stig
4) BMW 3-línan, 203 stig
5) Mazda5, 198 stig
6) Citroën C1/Peugeot 107/Toyota Aygo, 187 stig
7) Toyota Yaris, 143 stig