Renault Kangoo sendibíll ársins 2022

Ný kynslóð af sendibíl Renault Kangoo, sem kemur á markað á næsta ári, hlaut í nóvember alþjóðlega titilinn Sendibíll ársins 2022, eða „The International Van of the Year award (IVOTY)“, sem dómnefnd 24 evrópskra bílablaðamanna valdi.

Varð Renault Kangoo hlutskarpastur í flokki minni sendibíla ásamt Mercedes-Benz Citan sem kepptu um titilinn með tólf öðrum sendibílum sem dómnefnd skoðaði á árinu. Þetta er í fjórða sinn sem sendibílar Renault hljóta verðlaunin, en þau hlutu áður Master 1998, Trafic 2002 og Kangoo Z.E. 2012.

Eins og fráfarandi kynslóð verður nýr Renault Kangoo einnig boðinn í 100% rafknúinni útfærslu frá og með næsta vori. Sendibíllinn verður búinn 90kW rafmótor og 45kWh rafhlöðu sem veitir ökumanni allt að 300 km akstursdrægni á hleðslunni og möguleikann til að hlaða allt að 170 viðbótarkílómetrum á rafhlöðuna á aðeins 30 mínútum.