Renault Megane R.S. TROPHY-R sportbíll ársins hjá Echappement

Franska sporttímaritið Echappement magazine kaus nýlega nýjasta Megane R.S. TROPHY-R frá Renault sportbíl ársins 2020. Þetta er í sjöunda sinn frá 1982, þegar ritstjórn tímaritsins byrjaði með verðlaunin, sem Renault hlýtur fyrstu verðlaun Echappement. Þau féllu einnig í skaut Megane R.S. á árunum 2007, 2008 og 2014.

Að þessu sinni réðust úrslitin í vali á Sportbíl ársins af kosningu lesenda blaðsins sem sendu atkvæði, vali rallýökumanna og blaðamanna blaðsins.

Alls voru sjö sportbílar prófaðir af blaðamönnum Echappement og rallýökumönnum sem óku bílunum um tvö þúsund kílómetra á krefjandi vegum í frönsku héruðunum Vercors og Ardèche. Auk þess sem þeim var ekið á nokkrum sérleiðum Monte-Carlo rallýsins. Svo fór að Mégane R.S. Trophy-R hlaut flest stig lesenda, ökumana og ritnefndar en næstur að atkvæðum voru Ford Focus ST Pack og Toyota Supra GR.