Renault Modus of stuttur

http://www.fib.is/myndir/Renault-modus.jpg

Renault Modus, nýi EuropNCAP fimm stjörnu fjölnotabíllinn sem að stærð liggur í milli Renault Clio og Renault Megane hefur alls ekki uppfyllt þær væntingar sem framleiðandinn gerði til hans. Á síðasta ári seldust einungis 85 þúsund eintök af Modus sem er miklu minna en áætlanir gerðu ráð fyrir. Því verður hann endurhannaður hið snarasta og hann lengdur verulega og þar með gerður rúmbetri. Modus er í núverandi gerð styttri en hin nýja kynslóð Renault Clio.

Renault Modus var fyrst kynntur á bílasýningunni í Genf árið 2004 sem einskonar minni gerð fjölskyldu-fjölnotabílsins Scénic. Modus var þá og er hábyggður með vandaðri innréttingu sem auðvelt er að breyta á ýmsa vegu. En raunin er sú að Modus hefur ekki fallið bílakaupendum í geð. Greinilegt að hugmyndir hönnuðanna og væntanlegra kaupenda um hagkvæman og notadrjúgan bíl hafa ekki farið saman í þessu tilfelli.
http://www.fib.is/myndir/Renault-ModusStyri.jpg
Nú telja þeir hjá Renault sig hafa skilgreint hvað það var sem úrskeiðis fór og ekki féll neytendum í geð og sölustjórinn í Evrópu, Jacques Chauvet segir við Automotive News Europe að gallinn við Modus sé sá að hann sé of stuttur. Heildarlengd hans er 379 sm sem er 19 sm styttra en „litli bróðir“ – Clio. -Við höfum áttað okkur á sambandi lengdar bílsins og þess verðs sem neytendur eru tilbúnir að greiða fyrir hann,- segir Chauvet.

Undirvagninn eða botnplatan í Renault Modus er sú sama og undir nýja Clio bílnum og hugsun hönnuðanna var sú að skapa mjög rúmgóðan bíl með því að hafa hann hábyggðan en Modus er 10 sm hærri en Clio. Aftursætið er á sleða og hægt að færa það fram eða aftur eftir þörfum en stærsti gallinn er sá að farangursrýmið er fremur lítið eða 200 lítra miðað við 290 lítra í Clio. Loks er verðið í Evrópu 1.500 evrum hærra en á Clio. Hvorttveggja hefur fælt kaupendur frá Modus.

Modus hefur verið byggður í verksmiðju Renault í Valladolid á Spáni en áður en framleiðslan hófst var verksmiðjan endurbyggð fyrir 540 milljón evrur og afkastageta hennar aukin upp í 300 þúsund bíla á ári. Söluátlanir gerðu ráð fyrir að seldir yrðu 270 þúsund Modus bílar en það gekk semsé alls ekki eftir því að einungis seldust 86.414 stykki.  Næsta haust mun nýja gerðin af Modus verða kynnt. Hún verður umtalsvert lengri og með mun meira farangursrými.