Renault og AvtoVAZ saman í púkk

http://www.fib.is/myndir/Niva-tveir.jpg
Lada Niva tv. og Chevrolet Niva. Sá síðarnefndi er ávöxtur samstarfs GM og AvtoVAZ.

Sl. föstudag var gengið frá samkomulagi um kaup Renault/Nissan á 25 prósenta hlut í AvtoVAZ, stærstu bílaverksmiðju Rússlands. Framleiðslan verður samræmd og samanlagt verða fyrirtækin þriðji stærsti bílaframleiðandi heims á eftir Toyota og GM með rúmlega 7 milljón bíla ársframleiðslu.

AvtoVAZ varð til á Sovéttímabilinu í nánu samstarfi við Fiat á Ítalíu. Þekktustu bílar fyrirtækisins hér á landi voru Lada fólksbílar sem voru í grunninn Fiat 124, og Lada Niva eða Lada Sport, hvorttveggja bílar sem reyndust ágætlega en eru orðnir talsvert á eftir nútímanum í tæknilegu tilliti.  

Með kaupunum fær AvtoVAZ hlutdeild í mikilli tækni- og verkþekkingu  Renault/Nissan sem fær á móti aðgang að mjög stórri og afkastamikilli bílaverksmiðju sem staðsett er á miðju risastóru og hraðast vaxandi bílamarkaðssvæði heims um þessar mundir.
Ætlunin er að stækka verulega vöruúrvalið hjá AvtoVAZ og endurnýja og bæta gæði bílanna sem þar eru byggðir. Fyrstu  nýju bílarnir sem verða  bein afkvæmi þessa nýja samstarfs eru væntanlegir á markað strax undir lok næsta árs.