Renault Twizy

Renault sýnir í Frankfurt tveggja manna borgarfarartækið Twizy (lengd: 2.32 m / breidd: 1.19 m / hæð: 1.46 m). Þetta er rafbíll, sérstaklega hugsaður til að skjótast milli húsa og hverfa í borgum Evrópu. Twizy sem er rafknúinn, verður fjöldaframleiddur og kemur á almennan markað í lok ársins og verðið í Frakklandi með sköttum verður frá tæplega 7 þúsund evrum. 

http://www.fib.is/myndir/Twizy1.jpg
http://www.fib.is/myndir/Twizy2.jpg
http://www.fib.is/myndir/Twizy3.jpg

Verðið er, eins og með aðra rafbíla Renault, kaupverð bílsins sjálfs að undanteknum rafhlöðúnum. Þær leigir kaupandi. Mánaðarleg leiga rafhlaðanna kostar frá 45 evrum, en innifalið í henni eru franskir vegaskattar fyrir ekna vegalengd upp að 7.500 km árlega, eða 625 km á mánuði. Samkvæmt frétt frá Renault er það sú vegalengd í innanbæjarakstri sem dugar lang flestum.

Reksturskostnaður Renault Twizy, þ.e.a.s. viðhaldskostnaður, tryggingar og rafmagnskostnaður, er sagður mjög hóflegur eða allt að 15% lægri en reksturskostnaður skellinöðru. 

Renault Twizy er ætlað að höfða til önnum kafinna borgarbúa, einkum hinna yngri, og koma í stað heimilisbíls númer tvö. Farartækið mun fást í tveimur útgáfum og er önnur hægfara og til að mega aka henni dugar skellinörðupróf meðan bílpróf þarf á öflugri gerðina. Stjórntæki og ljósabúnaður er allt með svipuðum hætti og í venjulegum bílum. Auk ökumanns er sæti fyrir farþega sem situr aftan og til hliðar við ökumann.

 Innanrýmið og rými fyrir farangur er hugsað til að nægja fólki sem ekur til og frá vinnu eða þarf að skreppa út í búð og gera létt innkaup. Í Twizy er læst hirsla sem rúmar 31 lítra og er hugsuð sem geymsla fyrir skjala- eða tölvutösku og smáinnkaup. Þetta hólf er stækkanlegt upp í 55 lítra. Auk þess eru lítil geymsluhólf sitthvoru megin við stýrið.

 Öflugri gerðin af Twizy krefst sem fyrr segir bílprófs. Rafmótorinn í henni er 20 hö. en í hægfara gerðinni er mótorinn 5 hö. Líþíumrafhlöðurnar rúma 7 kílóWattstundir og eru undir ökumannssætinu. Þær eru 100 kíló að þyngd og duga til 100 km aksturs fullhlaðnar. Twizy er 450 kílóa þungt, tilbúið til aksturs. Venjuleg 230 volta 10 ampera innstunga nægir til að geta endurhlaðið rafgeymana og er hleðslutími tómra geyma þrír og hálfur tími.

 Krumpusvæði er í yfirbyggunni framanverðri til að vernda ökumann og farþega í árekstrum. Þá er loftpúði í farartækinu til að verja ökumann við árekstur og hliðarnar eru sérstaklega styrktar til varnar árekstrum frá hlið. Öryggisbvelti ökumanns er fjögurra punkta belti eins og í kappakstursbílum en þriggja punkta belti er fyrir farþegann. Diskahemlar eru á öllum fjórum hjólunnum.