Renault Zoe í Monte Carlo ralli

Monte Carlo rallkeppnin var fyrir margt löngu sú ökusportskeppni sem einna mesta athygli vakti. Það var ekki síst þegar hinn sænski Erik Carlsson varð ítrekað sigurvegari á Saab með tvígengisvél. Og síðan urðu Mini bílar í sigursæti aftur og aftur og nokkru síðar Renault bílar.

En Monte Carlo rallið er enn í fullum gangi og er ekki aðeins ein keppni á ári heldur margar. Aðalkeppnin sem er hluti af heimsmeistarakeppninni í ralli er ennþá hið hefðbundna Monte Carlo rall, síðan kemur fornbílarall þar sem gamlir Saab bílar, Mini, Renault og hvers konar klassískir bílar keppa. Loks skal nefna sérstaka keppni fyrir rafbíla, en sá flokkur kallast ZENN, sem stendur fyrir Zero Emission and Noise (Ekkert púst, enginn hávaði).

http://fib.is/myndir/Renault_Zoe2.jpg

Í þessari ZENN keppni er keppt í nokkrum stærðar- og gerðarflokkum bíla en sigurbíllinn varð nýi rafbíllinn Renault ZOE. Keppnin, sem er mun styttri en hin hefðbundna, fór fram 21.-23. mars sl. Fyrirkomulag hennar var það að eknir voru fjórir áfangar á fjallvegum norðan við Monte Carlo sem voru 46,51 til 88,08 kílómetrar. Innan hvers áfanga fór svo fram sérstakt próf eða athugun á eyðslu og orkunýtni bílanna og ýmsu öðrum eiginleikum þeirra og árangri. Veðrið og keppnisaðstæður voru ekki upp á sitt besta því bæði rok, rigning og þoka gerði keppendum lífið leitt.