Rétt að reyna að efna til samstarfs við bílaleigur

Að undanförnu hefur töluvert verið fjallað um þá fjármuni sem tapast á hverju ári vegna hraðasekta erlendra ferðamanna á bílaleigubílum hér á landi. Málið kom fyrst í umræðuna í umfjöllun í síðasta tölublaði FÍB-blaðsins um miðjan nóvember. Tölurnar varðandi niðurfelldar sektir vegna hraðabrota í myndavélum eru sláandi. Þær nema um 250 milljónum króna á ári.

Runólfur Ólafsson, framkvæmdastjóri Félags íslenskra bifreiðaeigenda, FÍB, kom fram í sjónvarpsfréttum á RÚV í gærkvöldi þarm sem umrætt mál var til umfjöllunar. Runólfur sagði m.a. að hann teldi eðlilegast að bílaleigur sjái um innheimtuna en Alþingi fallist ekki á það. Runólfur segir að í þessu felist mismunun og ákveðið forvarnargildi glatist.

Í umfjöllum á RÚV kom fram að hraðakstursbrotum sem náðst á hraðamyndavélum hefur farið fjölgandi undanfarin ár og á síðasta vori voru þau hátt í 46 þúsund. Í samantekt í síðasta FÍB-blaði kom fram að 95% slíkra sekta vegna fyrirtækjabíla, megnið vegna bílaleigubíla, falla niður.

Umfjöllun RÚV og viðtalið við Runólf Ólafsson má nálgast hér.