Réttu hand­tökin að skipta um dekk

Hjörtur Gunnar Jóhannesson hjá Félagi íslenskra bifreiðaeigenda segir að það fyrsta sem ökumaður ætti að gera þegar dekk springur sé að huga að aðstæðum. „Ef springur á bíl á erfiðum stað, t.d. Reykjanesbrautinni, þá þarf að tryggja að aðstæður séu sem öruggastar,“ segir Hjörtur í samtali við Fréttablaðið og minnir á að það er lögboðin skylda að hafa viðvörunarþríhyrning í bílnum.

1.Setjið bílinn í gír, handhemilinn á og steina við hjól ef þörf krefur.

2.Setjið viðvörunarþríhyrninginn 50-100 m fyrir aftan bílinn.

3.Takið hjólkoppinn af og losið um allar felgurærnar, en takið þær ekki af.

4.Náið í varahjólbarðann og tjakkinn. Stillið tjakknum undir bílinn. Upplýsingar um hvar hann er og hvar á að setja hann undir eru í eigandahandbókinni.

5.Lyftið bílnum þar til hjólbarðinn, sem skipta á um, er í lausu lofti.

6.Skrúfið felgurærnar af og takið sprungna hjólbarðann undan.

7.Setjið varahjólbarðann undir og skrúfið rærnar að – sú hlið róarinnar sem er með úrtakinu (kóníska hliðin) á að snúa að hjólbarðanum (felgunni). Herðið rærnar á misvíxl, þannig að felgan sitji rétt á.

8.Slakið bílnum niður, takið tjakkinn undan og herðið allar rærnar aftur. Setjið hjólkoppinn á.

9.Allt tekið saman og gengið frá með því að skrúfa allt fast á sinn stað.

10.Munið að láta gera við sprungna dekkið eins fljótt og auðið er. Setjið það strax undir því oft er varadekkið af annarri tegund eða minna slitið.

Ítarlegri leiðbeiningar frá Hirti og kennslumyndband er að finna hér.