Reva raf-borgarbílar með líþíum rafgeymum

http://www.fib.is/myndir/Reva-L-ion.jpg
Reva L-ion, tveggja manna rafknúinn borgarbíll - nú með líþíum rafgeymum.


Reva Electric Car Company (RECC) í Bangalore á Indlandi er að hefja framleiðslu tveggja manna Reva borgarbílanna með líþíum rafhlöðum í stað blý / sýrurafgeyma. Með nýju geymunum eykst drægi bílanna umtalsvert, hleðslutími styttist og aflið eykst. Umboðsaðili Reva rafbíla á Íslandi er Perlukafarinn ehf. Í frétt frá fyrirtækinu segir að hægt sé að taka við forpöntunum á nýja bílnum og fyrstu pantanir verða afhentar í júlí í sumar.

Gerðarheiti nýju bílanna er Reva L-ion. Þeir verða byggðir á sömu grunnplötu og eldri gerðin. Með nýju geymunum eykst drægi þeirra úr ca 80 km í 120 km og hámarkshraðinn verður 80 km á klst. Fáanleg verður með nýju bílunum sérstök þriggja fasa hraðhleðslustöð sem fyllir tóma líþíumgeymana upp í 90 prósent á einungis einni klst. Hleðslutími tómra rafgeyma úr venjulegri heimilisinnstungu tekur sex klst. í stað átta áður.
http://www.fib.is/myndir/Reva-rafbill-1.jpg
Hraðhleðslustöðin nýja er ekki síst ætluð fyrirtækjum, stofnunum og öðrum á hverjum stað, sem þurfa að hafa stöðugan aðgang að bílum sínum allan liðlangan daginn.

–Umhverfismeðvituð fyrirtæki og stofnanir geta nú skapað sér þá sérstöðu að geta gert starfsfólk sitt út af örkinni á mengunarlausan hátt hvenær sem er. Mengunarlaus akstur er að verða að veruleika,- segir Chetan Maini tæknistjóri og stjórnarmaður í RECC, framleiðslufyrirtækis Reva rafbílanna við vefmiðilinn India Automotive.

Samkvæmt vefmiðlinum hefst fjöldaframleiðsla á fullu í febrúarmánuði á Reva L-ion. Bíllinn verður fáanlegur auk Indlands - á Íslandi, í Noregi, Bretlandi, Frakklandi, Kýpur, Grikklandi, Spáni, Belgíu og Írlandi.