Reykjandi skemmtiferðaskip

Skemmtiferðaskip við Miðbakka. Reykinn frá dísilorkuveri skipsins leggur yfir nærliggjandi byggð.
Skemmtiferðaskip við Miðbakka. Reykinn frá dísilorkuveri skipsins leggur yfir nærliggjandi byggð.

Gangandi vegfarandi á leið til vinnu í gærmorgun (21. sept.) tók eftir því að töluverðan reyk lagði upp úr reykháfum skipsins Hanseatic Nature við Miðbakka í Reykjavíkurhöfn móts við Hafnarhúsið og Tollhúsið við Tryggvagötu. Reykurinn sem kom frá raforkuveri skipsins var vel sjáanlegur þótt hann væri ljós að lit og þar með ekki dæmigerður svartolíureykur. Reykurinn barst með vindinum yfir nýbygginguna sem sést aftan við skipið, en hún hýsir margar dýrustu íbúðir á Íslandi. Reykmengun af þessu tagi verður brátt úr sögunni því, að sögn hafnarstjórans Magnúsar Þórs Ásmundssonar framkvæmdastjóra Faxaflóahafna, er gert ráð fyrir að skip sem leggjast að bryggju við Miðbakka í Reykjavíkurhöfn tengist brátt rafmagni úr landi. Landtengingarnar eiga að verða tilbúnar á komandi ári.

    Fólk sem býr og/eða starfar í miðbænum hefur lengi kvartað undan skipum – ekki síst skemmtiferðaskipum - sem leggjast að Miðbakka, vegna reyks og óþefs frá ljósavélum þeirra. Þótt skipin séu sannlega ekki af stærstu gerðum slíkra skipa má samt líkja komum þeirra við það að meðalstórt íslenskt sjávarþorp leggist að bryggju. Mannfjöldinn um borð getur verið  samtals á annað þúsund manns og auk aflvéla skipanna eru dísilknúin raforkuver um borð sem framleiða straum til að sjá íbúum fyrir ljósum, hita, matseld og að halda kæli- og frystigeymslum og hverskonar annarri orkukrefjandi starfsemi gangandi um borð. Og oftar en ekki bera vindar dísilreykinn frá orkuverum skipanna yfir miðbæinn, vesturbæinn og jafnvel Þingholtin.

   Reykjandi skipAðspurður um brælu frá skipum eins og myndin sýnir sagði hafnarstjóri að það væri sannarlega mikilvægt loftgæða- og umhverfismál að hefta þennan útblástur og fullur vilji til þess. Mikið verk væri þegar unnið í því efni þótt miklar og dýrar framkvæmdir væru enn framundan.  Í gömlu höfninni eru landtengingar þegar komnar upp fyrir fiskiskip og minni báta og hafa verið virkar um nokkra hríð. Ennfremur eru öll ferðaþjónustuskip og -bátar við Ægisgarð - hvalaskoðunarskipin o, fl. landtengjanleg og sömuleiðis flest fiskiskipin.

    Í gömlu höfninni í Reykjavík og í Akraneshöfn verða aðstæður bættar á komandi ári, að sögn hafnarstjóra. Settar verða upp  þar landtengingar fyrir farþegaskip sem vænst er að komist í gagnið strax á næsta ári, 2022, þannig að brælan frá skipum við Miðbakka og í Akraneshöfn ættu þar með að verða úr sögunni að mestu.

    Jafnframt þessum endurbótum í gömlu Reykjavíkur- og Akraneshöfnum hefst vinna við öflugar landtengingar fyrir stóru farþegaskipin í Sundahöfn. Fyrstar verða tvær tengingar fyrir stóru skemmtiferðaskipin en einnig eru áætlaðar landtengingar fyrir stóru gámaskipin sem leggjast að bryggjum í Sundahöfn. Gámaskipaverkefnið í Sundahöfn verður unnið í samstarfi Faxaflóahafna, Eimskips og fleiri aðila.